138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir það að brugðist hafi verið við ósk minni um að kalla saman formenn þingflokka. Það var auðvitað ekki við öðru að búast, nú þegar senn eru liðnir 20 tímar frá því að við hófum þingfund á þessum þriðjudegi, en að þeirri beiðni minni yrði heldur fálega tekið af einstökum ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem þótti það vera sjálfsagt og eðlilegt að halda áfram eins og fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra. Má ég minna á að við höfum gert ráð fyrir því að hefja fund aftur kl. hálfníu. Sem sagt, ef við klárum eftir klukkutíma verður tæplega tveggja tíma hlé eftir að hafa fundað í 21 klukkustund. Ráðherrunum og væntanlega forseta þingsins þykir hæfilegt að taka tveggja tíma pásu og halda svo áfram, allt til að þurfa ekki að vera hér í eftirmiðdaginn á morgun. Hvers konar endaleysa er þetta? Og að vísa til þess að það sé eitthvert samkomulag um dagskrá þingsins er auðvitað fráleitt. (Forseti hringir.) Samkomulag formannanna er ekki annað en tilraun til að styðja við stjórn þingsins. Þegar hún fer úr böndunum þarf að nota nokkuð sem við köllum heilbrigða (Forseti hringir.) skynsemi. Það virðist sem menn hafi algerlega glatað henni einhvern tíma eftir miðnætti.