138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

framhald þingfundar.

[05:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er alveg til í að neita mér um þá ánægju að ræða vatnalögin eins og ég hafði áformað inn í daginn við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson. En ég vil segja það að mér finnst stjórnarandstaðan hafa verið sanngjörn (Gripið fram í: Jæja.) í þessum málum og í samkomulagi um þinghaldið og ég bið hana um að halda áfram að vera sanngjarna.

Formaður Sjálfstæðisflokksins kom hingað og hann bað um það að kvaddur yrði saman fundur þingflokksformanna. (SKK: Ég þakkaði fyrir.) Já, hv. þm. Sigurður Kári þakkaði fyrir það. Nú er búið að gera það og er þá ekki sanngjarnt á meðan þeir funda og ráða ráðum þingsins, að við höldum áfram þessari umræðu? Sá fundur er vafalaust skammt fram undan og stendur ekki mjög lengi. Ég held að það sé ekki ósanngjörn tillaga af minni hálfu. Að öðru leyti lýsi ég því yfir (Gripið fram í.) og ítreka það sem ég hef áður sagt að það verður enginn alvöruþingmaður fyrr en hann sér sólina rísa út um glugga Alþingishússins.