138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[05:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að koma í andsvar því að ég deili ekki því áhyggjuleysi með hv. þm. Skúla Helgasyni sem flutti hérna mál sitt að það sé í lagi að fresta gildistöku þessara laga í eitt ár. Við lifum á mjög sérstökum tímum og stjórnmálaástand er mjög ótryggt. Þó að við vitum að ríkjandi stjórnvöld, og ég held í raun allir stjórnmálaflokkar sem hér eiga sæti, séu sammála um að þessi lög eigi ekki að taka gildi vitum við ekkert hvað við verðum hérna lengi. Síðustu sveitarstjórnarkosningar sýndu að ný öfl geta mjög auðveldlega fengið vægi. Ég held að við höfum verið heppin þá, við fengum jákvæða brosbyltingu, en við vitum ekkert hvað við fáum næst og hvenær.