138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[05:57]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ábendinguna. Ég held að hún sé að mörgu leyti réttmæt. Ég tek þó mið af þeirri umræðu sem átti sér stað í iðnaðarnefnd og málflutningi þingmanna og forustumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um þetta mál. Það er mín skoðun að breið pólitísk samstaða sé um það í þinginu að það sé enginn vegur til að þessi vatnalög frá 2006 taki gildi, að við séum komin fram yfir þann punkt. Ég ræð það m.a. af þeirri vinnu sem hin þverpólitíska vatnalaganefnd lagði í að endurskoða þau ákvæði laganna frá 2006 sem ollu mestum deilum. Hér er í salnum hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem tók þátt í ágætu starfi þeirrar nefndar. Það liggur fyrir að þar náðist sátt um að gera endurskoðun á þessu réttindaákvæði laganna. Ég tel að við höfum öll lært af þessari reynslu og það sé ekki ástæða til að óttast að þessi lög taki gildi.

Hins vegar dreg ég ekki fjöður yfir það að það verður mikið verk og vandasamt að fara í gegnum nýtt vatnalagafrumvarp. Það hefur komið í ljós í eftirvinnslu þess frumvarps sem var lagt fram 1. desember sl. að þarna er vandasamt verkefni á ferðinni. Maður er minnugur þess að á sínum tíma þegar vatnalögin frá 1923 voru lögfest tók það ekki bara ár heldur áratugi að koma þeirri löggjöf saman. Þarna má ekki kasta til höndunum. Við þurfum að sameinast um það í þinginu að vinna málefnalega að því að skapa hér lög sem geta þá gilt um langa hríð.