138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[05:59]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, með síðari breytingum. Þetta frumvarp er í reynd mjög einfalt. Það kveður á um frestun á gildistöku umræddra laga, vatnalaganna frá árinu 2006.

Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns hefur rignt yfir þingmenn áskorunum frá almenningi um að nema þessi lög algerlega úr gildi. Hér erum við að tala um að fresta gildistöku laganna en það sem fólkið óskar eftir er að við nemum þessi lög algerlega úr gildi. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessar áskoranir vekja bjartsýni með mér. Þetta sýnir okkur hve vakandi þjóðfélagið er og hve staðráðin þjóðin er í því að láta ekki stela frá okkur vatninu. Það hefur verið góð áminning að hlusta á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins kveðja sér hljóðs um þetta málefni. Það er góð áminning fyrir okkur í þinginu og fyrir þjóðina að sjá endrum og eins framan í Sjálfstæðisflokkinn, (Gripið fram í.) einkavæðingarflokkinn, (Gripið fram í: Og framan í Ögmund.) flokkinn sem hefur áhuga á því að styrkja einkaeignarrétt á vatni. (Gripið fram í: Er það?) Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn (Gripið fram í.) vildi gera árið 2006 og vill gera enn. (Gripið fram í: Loksins þegar …) Það er þess vegna sem hann stendur gegn því (Gripið fram í: Það er komin svefngalsi …) að þessi lög verði numin brott. (Gripið fram í: Jahá.) Hann vill láta fresta lögunum og væntanlega liggur hann á bæn og vonast til að vera kominn til valda aftur þannig að sá dagur renni ekki upp að þessi lög verði numin (Gripið fram í: Ertu eitthvað smeykur? Ertu smeykur núna?) úr gildi. Þetta er bara staðreynd.

Ertu smeykur? kalla menn. Já, ég er það. Við erum að horfa upp á það núna að erlendur fjárfestir, braskari í Kanada sem er að braska með hlutabréf austur í Kína núna, Ross Beaty, (Gripið fram í: Hvað með …?) sem kemur fram undir heitinu Magma Energy (Gripið fram í: Hvað með …?) og á heima í skúffu í Svíþjóð (Gripið fram í.) en er runninn upp í Kanada, er að eignast yfirráðarétt yfir jarðskorpunni á Reykjanesi.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur og þetta er ekkert gamanmál. (Gripið fram í: Allt í boði …) Það væri ekkert gamanmál [Háreysti í þingsal.] að vera búinn að missa Gvendarbrunnana í eignarhald fyrirtækja sem vilja græða á vatninu. Della, segir formaður Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Gvendarbrunnar?) Er það sama dellan og Frakkar hafa þurft að upplifa eftir að vatnið þar í landi var einkavætt. (Gripið fram í: Djöfulsins vitleysa.) Djöfulsins vitleysa, hæstv. forseti, (Gripið fram í: Þú veist ekki …) er kallað úr salnum. (Gripið fram í: Þú ert í ríkisstjórn.) Þetta er sá vandi sem Íslendingar standa frammi fyrir, að verja auðlindir sínar. Þetta er grafalvarlegt mál og það er þetta sem ég vildi byrja á að vekja athygli á, að hundruð og þúsundir Íslendinga senda alþingismönnum núna áskoranir um að nema þessi lög úr gildi. Ég vek athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarna daga verið að sýna þingi og þjóð sitt rétta andlit. (Gripið fram í: Er ekki meiri hluti fyrir …?)

Lögin frá 2006 eru endurskoðun á stórum lagabálki sem gildir um vatnsréttindi og á rót frá árinu 1923, reyndar nokkrum árum áður því að unnið var að lagabálkinum sem samþykktur var á Alþingi árið 1923 í nokkur ár áður en hann varð að veruleika. Það var mikið starf unnið á Alþingi Íslendinga til að reyna að ná sátt um eignarhaldið eða afnotaréttinn á vatni. Árið 2006 var svo komið sögu að ástæða þótti til að endurskoða þennan lagabálk. Ég er alveg sammála því, það þarf að endurskoða lagabálkinn frá 1923. Þá er spurningin á hvaða forsendum það skuli gert. Sjálfstæðismenn og þeir sem réðu Framsóknarflokknum á þeim tíma vísuðu til þess að dómapraxís 20. aldarinnar hefði verið í þágu einkaeignar á vatni og að þegar við endurskoðuðum lagabálkinn ættum við að styrkja einkaeignarréttinn á vatninu. Við sem andæfðum þessu bentum á að önnur sjónarmið væru að ryðja sér til rúms, (Gripið fram í.) nefnilega þau að það ætti að tryggja almannaeign á vatninu. Á þessum mánuðum og missirum í aðdraganda þessarar umdeildu lagasetningar árið 2006 sameinuðust öll helstu verkalýðssamtök í landinu, öll helstu almannasamtök í landinu auk þjóðkirkjunnar. Ég nefni ASÍ, BSRB, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Kennarasamband Íslands, Landvernd, Mannréttindaskrifstofu Íslands, MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, (Gripið fram í: En BSRB?) Landssamband eldri borgara, SÍB, Ungmennafélag Íslands, UNIFEM á Íslandi, þjóðkirkjuna og Öryrkjabandalag Íslands (Gripið fram í.) um kröfu um að tryggja almannaeign á vatninu. (Gripið fram í: Einhverjir drógu …) Í þessari yfirlýsingu segir m.a., með leyfi forseta:

„Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.“

Það sem hér er um að ræða, hæstv. forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Má ég biðja um hljóð í þingsalnum.) (Gripið fram í: … ræðumaður.)

Ég er alveg tilbúinn að fresta ræðu minni. Ef ákvörðun verður tekin um það á fundi þingflokksformanna að fresta þessum fundi er ég tilbúinn að fresta ræðu minni. Ég ætla að ræða um vatnið (Gripið fram í: Já, gott.) og ég ætla að ræða um þetta lagafrumvarp og ef menn gefa mér ekki hljóð til þess geri ég hlé á ræðu minni. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vill greinilega að ég rifji upp hans hlut í þessari umræðu á sínum tíma þegar hann reyndi að gera tortryggilega undirskriftasöfnun eða áskorun þessara samtaka sem hér um ræðir. Það sem hann vildi gera tortryggilegt var að sá sem hér stendur var á þessum tíma formaður BSRB, og BSRB var meðal þeirra samtaka sem stóðu að þessari áskorun. Ég vek athygli á því að innan stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og allra þeirra samtaka sem hér er vísað til var einhugur um þessa áskorun. Og mér finnst ástæða, hæstv. forseti, til að leggja áherslu á þessi sjónarmið núna þegar í hönd fer endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Ég tel mikilvægt að við endurskoðun á stjórnarskránni verði rækilega fest í texta ákvæði þess efnis að tryggja almannaeign á vatninu. (Gripið fram í: Byltingin lifi.) Það er margt sem þarf að gera núna og taka til endurskoðunar í ljósi okkar nýju aðstæðna. Það er hættulegt þegar gengi gjaldmiðils okkar hríðfellur eins og hefur gerst og aðkoma erlendra fjárfesta að okkur verður fyrir vikið auðveldari. Við eigum ekki að vera hrædd en við eigum að vera raunsæ, hvort sem í hlut á kínverska alþýðulýðveldið sem kemur hingað færandi hendi eða Evrópusambandið (Gripið fram í: Eða Jón Ólafsson.) sem ætlar að veita fjármuni hingað til þess, að því er ég tel, að fá okkur inn undir sína vængi. Ísland er mikilvægt á norðurslóð í augum þessara aðila allra, Kínverjanna, Evrópusambandsins og annarra. Við þurfum að huga að því hvernig við förum að því að tryggja stöðu okkar best og þar með verja auðlindir okkar. Ég tel brýnasta verkefni Alþingis nú vera að búa svo um hnúta með lagasetningu að við tryggjum eignarhald á auðlindunum.

Ég hefði kosið að geta hlustað á ræðu í gærkvöldi við eldhúsdaginn sem hefði verið ein setning, svohljóðandi:

Okkur tókst að tryggja eignarhald á auðlindum Íslands.

Sú ræða var ekki flutt vegna þess að fyrir henni er engin innstæða. Við erum nýbúin að missa eignarhald og ráðstöfunarrétt yfir dýrmætum auðlindum á Reykjanesinu í hendur Magma Energy og það er brýnt að Alþingi og ríkisstjórn hysji upp um sig brækurnar og setji lög sem tryggi eignarhald okkar á auðlindum. Okkur ber að gera það. Ef okkur tekst ekki þetta ætlunarverk okkar er það falleinkunn fyrir ríkisstjórn og fyrir Alþingi. Ég held að þeir sem byrjuðu á því að hlæja og gantast þegar farið var að vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja eignarhald þjóðarinnar á vatninu eigi að endurskoða hug sinn. Þetta er grafalvarlegt mál og jafnvel lög sem hér voru sett árið 2007 í góðum hug og í sáttargjörð milli þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, um að tryggja eignarhald á auðlindum en leyfa einkaaðilum að hafa með hendi eignarhald á orkufyrirtækjunum eru úrelt, þau eru einfaldlega úrelt. Menn mátu málin ekki rétt vegna þess að orkufyrirtæki sem fær ráðstöfunarrétt á orku eins og dæmin sanna núna á Reykjanesi í 65 ár og 65 ár önnur til viðbótar, samtals 130 ár, er í reynd komið með eignarhald á orkulindunum.

Þetta ber okkur núna að endurskoða. Við eigum að taka alla þessa löggjöf upp og ég hvet til þess að yfir sumarmánuðina vinnum við að þessu (Gripið fram í.) og tryggjum með lagasetningu í haustþinginu í september eignarhald Íslendinga á orkulindum sínum. (Gripið fram í: Hvar er eignarhaldið núna?)