138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að þýska þingið hefði sett okkur það skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu að Íslendingar hættu hvalveiðum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þýska þingið hefur með ákvörðun sinni 22. apríl 2010 lýst yfir fullum stuðningi við formlegar viðræður við Ísland sem miða að því að Ísland öðlist fulla aðild að ESB. En samtímis lýsti þingið því yfir að Ísland yrði að taka sig á hvað varðar verndun hvala í samræmi við alþjóða- og ESB-lög.“

Virðulegi forseti. Hér er kominn upp ágreiningur um það mál sem maður hefur talið að yrði helsta ágreiningsmálið í aðildarviðræðum okkar við ESB, þ.e. um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Ég tel óforsvaranlegt að Ísland haldi áfram viðræðum við Evrópusambandið á meðan svo stórt ágreiningsmál er greinilega í uppsiglingu. Það er ekki réttlætanlegt að eyða milljörðum króna í viðræður við Evrópusambandið á sama tíma og þeir setja okkur skilyrði fyrir fram um það hvernig við nýtum okkar sjávarauðlind. (Forseti hringir.) Ég hvet forseta til að taka þetta mál til umræðu á þinginu.