138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég heyri að verið er að beina áskorun til forseta um að breyta dagskrá vegna þess að það þurfi að ræða afstöðu Íslands hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu varðandi stefnu í hvalveiðum og síðan kröfu Þjóðverja um að Ísland verði að hætta hvalveiðum áður en orðið geti af aðild að Evrópusambandinu. Það alveg rétt að í gær var fundur fulltrúa ráðuneytisins og staðgengils þýska sendiherrans þar sem þessari kröfu Þjóðverja var komið mjög rækilega á framfæri, að Ísland yrði að hætta hvalveiðum áður en til Evrópusambandsaðildar kæmi. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart.

Hitt vil ég taka fram (Forseti hringir.) að í þeim samningum sem núna standa yfir í Alþjóðahvalveiðiráðinu fer (Forseti hringir.) Ísland náttúrlega að sínum eigin kröfum og eigin hagsmunum, sem er að vernda og nýta auðlindirnar (Forseti hringir.) með sjálfbærum hætti og án þess að láta af (Forseti hringir.) neinum kröfum af því taginu. Þar er því (Forseti hringir.) ekkert að óttast að mínu mati.