138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Alltaf leggst okkur andstæðingum ESB-aðildar eitthvað til. Nú hafa Þjóðverjar ákveðið að hjálpa okkur við að leggja stein í götu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og það er vissulega vel. Þar með eru þeir í rauninni að sýna sitt rétta andlit. Það liggur fyrir að Evrópusambandið hyggst hafa áhrif á stefnu okkar í sjávarútvegsmálum og þar með talið hugmyndir okkar um hvalveiðar, sem er auðvitað algerlega óviðunandi. Þetta er álíka gáfulegt eins og ef við færum núna í Evrópusambandsviðræður á þeim forsendum að við vildum ekki að Þjóðverjar héldu áfram bílaframleiðslu sinni vegna þess að okkur fyndist það siðlaust, það ylli mengun, bílar yllu slysum o.s.frv. Þetta er álíka gáfulegt.

Við ætlum okkur auðvitað að verja íslenskan sjávarútveg. Við ætlum að verja þann rétt okkar að geta veitt hval (Forseti hringir.) með sjálfbærum hætti. Hins vegar ber að fagna því (Forseti hringir.) í sjálfu sér að Þjóðverjar skuli með þessu leggja stein í götu aðildarumsóknar okkar að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Okkur leggst alltaf eitthvað til.