138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir óskir þeirra aðila sem fara fram á að við ræðum þessi mál undir öðrum formerkjum en fundarstjórn forseta. Það er enginn bragur á þessu. Hér kemur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og tilkynnir okkur að sendiráð Þýskalands hafi haldið sérstakan fund til að útskýra fyrir Íslendingum hvernig þeir eigi að haga sér í sjávarútvegsmálum. Auðvitað kemur þetta okkur sem þekkjum til ekkert á óvart. Við vitum að það er sameiginleg sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna hjá Evrópusambandinu þannig að ef við göngum þar inn munu allir geta skipt sér af okkar málum hvað það varðar. Þannig er það.

Virðulegi forseti. Þetta kemur mörgum á óvart og ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að áður en aðildarviðræður hæfust færu þessar vinaþjóðir okkar að hafa afskipti eins og þau sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur upplýst um. Ég legg til (Forseti hringir.) að við ræðum það sérstaklega.