138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég hef haft nokkrar áhyggjur undanfarna daga einmitt af því sem kom fram í fjölmiðlum í morgun, en ekki fengið það staðfest fyrr en nú, að Evrópusambandið er þegar byrjað að setja kröfur á hendur Íslendingum. Nú eru það hvalveiðar. Þetta tengist ekki afstöðu minni til hvalveiða. Afstaða mín er sú að Íslendingar eigi sjálfir að ráða hvort þeir stunda hvalveiðar eða ekki en það á ekki að vera að kröfu Evrópusambandsins.

Mér finnst alveg ljóst að þetta stemmir mjög vel við það sem sendiherra Evrópusambandsins hér á landi, embættismenn og fleiri hafa haldið fram, sem er að aðlögunarferlið taki þann tíma sem Íslendingar vilji taka í það. Það þýðir að þeim mun fyrr sem við göngum að kröfum Evrópusambandsins varðandi ýmis mál, þeim mun fljótar gengur þetta aðlögunarferli fyrir sig. Ég vil beina því til frú forseta að Evrópusambandsumsóknin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í ljósi þessa og ýmissa annarra ummæla sem komið hafa fram (Forseti hringir.) bæði hjá ráðamönnum Evrópusambandsins og embættismönnum.