138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur staðfest að þýska sendiráðið gengur þeirra erinda að reyna að leggja stein í götu hvalveiða Íslendinga. Það er algerlega óásættanlegt og í ljósi þessa mikilvæga og kostnaðarsama máls er mjög eðlilegt að við breytum dagskránni og tökum málið til umræðu. Það verður hreinlega að gera, virðulegi forseti. Við erum að tala um milljarðakostnað. Á morgun ætla Evrópuríkin að taka ákvörðun um að hefja formlegar viðræður við okkur og við stöndum því á tímamótum í þessu máli.

Það hlýtur einnig að vera mikilvægt fyrir þingheim og þjóðina að heyra svör hæstv. ríkisstjórnar við kröfu Þjóðverja. Við hljótum að krefjast þess að í samræmi við vilja þingsins og þjóðarinnar í þessu máli bregðist hæstv. ríkisstjórn harkalega við. (Gripið fram í: Um 5.000 kr.) Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þessu máli verður að gefa tíma í þingsölum. Það er ekki nóg (Forseti hringir.) að ræða það á lokuðum fundum í þingnefndum eða án þess að við vitum (Forseti hringir.) nákvæmlega hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við.