138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega dæmi um það sem ég nefndi áðan. Það er til einhver listi sem ekki fylgir málinu, ríkisstjórnin er með sínar hugmyndir um það hvernig vinna á heildarendurskipulagningu stofnanakerfisins en hefur ekki séð ástæðu til að láta þær hugmyndir fylgja málinu. Þetta er akkúrat dæmi um það að ríkisstjórnin óskar opinnar heimildar til að gera hluti sem hún ætlar ekki einu sinni að deila með þinginu.

Varðandi viðbragðshóp ráðuneytisins vil ég bara ítreka það að þingið átti frumkvæði að gerð rannsóknarskýrslunnar, þingið er með skýrsluna til skoðunar, þingið mun mynda sér sína eigin skoðun á því að hve miklu leyti þarf að efla stjórnsýsluna vegna þess sem hér gerðist.

Ég vil þó hafa sagt það og mun að sjálfsögðu ítreka það í máli mínu á eftir að við erum ekki að tala um að standa í vegi fyrir aukinni hagræðingu í stjórnsýslunni. Við viljum hins vegar að málið fái mikla umfjöllun og vandaða faglega meðferð í þinginu (Forseti hringir.) og ég geri athugasemdir við það að ráðherrann komi hér inn með frumvarp sem hún óskar eftir að verði klárað strax á haustþinginu. Það verður þingsins að ákveða hvenær málið er tilbúið til afgreiðslu.