138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[11:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur enn og aftur það svar að talið er að þetta muni skila sér með einhverjum hætti. Hvorki er búið að setja skýr mörk um það hvernig því skuli náð né hvernig það skuli mælt. Við erum auðvitað fyrst og fremst að hugsa um að spara á næsta ári eða næstu tveimur eða þremur árum. Ef þetta eiga að vera bráðaaðgerðir sem eiga að skila einhverju í þessu mun það ekki gerast á þeim árum.

Hin spurningin sem ég var með snertir atvinnuvegaráðuneytið. Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að þar væru allir atvinnuvegirnir undir. Auðvitað er það ekki svo. Fjármálamarkaðurinn er ekki hér og ekki hinn gríðarlega stóri opinberi markaður og ýmsir aðrir markaðir, atvinnumarkaðir sem eru á gráu svæði. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til tals að í landi eins og Íslandi, þar sem sjávarútvegur skilar um 40% af útflutningstekjum aftur eins og hann gerði áður og sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta sem tengist matvælaframleiðslu eru gríðarlega mikilvægir þættir, hefði verið skynsamlegra að (Forseti hringir.) stofna matvælaráðuneyti frekar en atvinnuvegaráðuneyti með eins ólíkum atvinnuvegum og iðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði.