138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarna Benediktssyni verður tíðrætt um opnar heimildir. Ég sat í ráðuneyti Geirs Haarde á árunum 2007–2009. Þar voru nokkur ráðuneyti sameinuð, m.a. voru verkefni færð úr landbúnaðarráðuneyti í umhverfisráðuneyti og ef ég man þetta rétt þá var líka tekin ákvörðunin um sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. Minnið er reyndar ekki alveg upp á sitt besta þennan morguninn.

Þáverandi forsætisráðherra lagði fram reglugerð sem var algjörlega opin, opin heimild hét það. Nú er einmitt verið að bæta og breyta vinnubrögðum. Hér eru málin til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga í opinni umræðu, fara inn í þingnefnd, og að sjálfsögðu verður það þannig, frú forseti, að þingmenn og þingnefnd taka þann tíma sem þarf í þetta mál. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Við vitum hins vegar og þekkjum það vel að hæstv. ráðherrar ýta mjög á eftir málum sínum. Þá gildir einu hver ráðherrann er eða úr hvaða flokki hann kemur.

Hér eru vinnubrögðin ný, opin, góð og gegnsæ. Auðvitað byggja þessi mál á stefnu flestra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þó að útfærslan sé ekki nákvæmlega sú sama hjá öllum.

Að síðustu, frú forseti, vildi ég inna hv. þm. Bjarna Benediktsson eftir því hvort ég hafi skilið hann rétt. Vildi hann að öllum breytingum yrði slegið á frest þar til þingmannanefnd um rannsóknarskýrsluna hefði skilað af sér? Því er ég algjörlega ósammála. Eitt útilokar ekki annað í því. Að sjálfsögðu mun þingmannanefndin skila sínum tillögum hér inn. En það breytir því ekki að löggjafinn hefur lesið skýrsluna, tekið mið af henni og þar er hægt að draga skýrar ályktanir um nauðsyn þess að styrkja stjórnsýsluna á Íslandi.