138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá svar frá hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins um vinnubrögð fyrri ríkisstjórna í þessum málum með opnum reglugerðarheimildum og breytingum á stjórnarráði án þess að það hafi nokkurn tíma farið sem frumvarp í gegnum þingið. (Gripið fram í.) Það er ágætt að halda staðreyndum til haga í svona umræðu, frú forseti, til þess að skýra málin.

Hvað varðar meintar hótanir eða leiðbeiningar þá er málið, frú forseti, á forræði Alþingis. Samráðsferlið fer hér fram eins og þingmenn vita. Málið fer í nefnd. Það fer til allra þeirra sem kunna að hafa á því skoðun og vilja lýsa skoðun sinni á því hvort vinnubrögðin séu vond eða slæm, frú forseti. Málið er í þessari umræðu og síðan verður því vísað til nefndar á forræði Alþingis Íslendinga. Hvernig geta þingmenn verið óánægðir með það að tillaga um grundvallarbreytingar — ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi legið fyrir áratugum saman en það kunna ekki allir að vera sammála því. Þær munu styrkja stjórnsýsluna, þær munu styrkja þjónustu við atvinnuvegina, þær munu styrkja vinnubrögð og lýðræði í þessu landi og þar af leiðandi styrkja það verk sem við vinnum fyrir fólkið í landinu. Hvernig getur það verið með einhverjum hætti vont, ógagnsætt eða skortur á samráði að málið sé komið til löggjafans og sé þar til umfjöllunar þar sem það fær umfjöllun næstu vikur og mánuði? Þar munu að sjálfsögðu koma fram öll sjónarmið um málið. Að sjálfsögðu munu flokkarnir, þingmenn og fulltrúar almennings taka afstöðu til þeirra sem byggð er á staðreyndum og réttum upplýsingum.