138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er greinilegt að ég og hv. þingmaður höfum ólíkan skilning á hugtakinu samráð. Er verið að óska eftir einhverju samráði við þingið hér? Ég les það ekki út úr málinu. Ég les það út úr málinu að óskað er eftir því að málið verði afgreitt sem lög í september, sem opin heimild til ríkisstjórnarinnar til þess að gera grundvallarbreytingar á stjórnkerfinu. Er þetta kallað samráð? Ef hugmyndin er sú að þingið geti kollvarpað málinu þá er í raun og veru verið að biðja þingið um að veita einhverja leiðsögn vegna þess að ekki er leiðsögnina að finna í málinu sjálfu. Það er svo augljóst af greinargerðinni að allt er galopið með það hvernig vinna eigi málið áfram. Þessu er dengt fram sem hugmyndum, það er vísað í að til séu listar um sameiningu ríkisstofnana, það er vísað í það að viðbragðshópurinn hafi talið að efla mætti stjórnsýsluna með því að fækka ráðuneytum o.s.frv.

Það sem ég er að kalla eftir er samtal á milli þings og framkvæmdarvalds þar sem framkvæmdarvaldið kemur með útfærðar hugmyndir og við hér á þinginu bregðumst við þeim. Það er samráð. Það er ekki samráð þegar ríkisstjórnin kemur og segir: Við viljum fá risastóra óskilgreinda opna heimild til þess að fækka ráðuneytum, við erum að velta fyrir okkur hinu og þessu og sjáum að margvísleg tækifæri liggja í breytingum, viljið þið ekki vinsamlegast veita okkur lagaheimild til þess að leggja af stað? Þetta finnst mér ekki vera samráð. En við getum auðvitað snúið þessu máli upp í það að þingið veiti ríkisstjórninni leiðbeiningar um hvað það telur rétt að gera.

Ég segi það í þriðja sinn í þessari umræðu: Ég tel rétt að leita hagræðingar í stjórnsýslunni. Ég tel að það megi vafalaust sameina ráðuneyti. Ég tel að við getum margt gert til þess að nýta fjármuni betur, til þess að auka skilvirknina í kerfinu, til þess að þær stofnanir sem við erum með í ríkisrekstrinum og ráðuneytin sjálf mæti betur þeim væntingum sem eru hjá atvinnulífinu vegna framgangs einstakra mála. Það má margt gera. En til þess að hér geti átt sér stað einhver vitræn umræða þurfa að (Forseti hringir.) liggja fyrir betur útfærðar hugmyndir (Forseti hringir.) og menn þurfa að hafa vandað betur til samráðsins. (Forseti hringir.)