138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki vel að mér í því hvernig breytingar á Stjórnarráðinu hafa nákvæmlega verið gerðar en ef ég man rétt var fyrir einhverjum árum var einfaldlega notaður forsetaúrskurður til að breyta uppbyggingu ráðuneyta, hvort það var út af iðnaðarráðuneytinu eða hvað, ég man það ekki nákvæmlega. Ég þori ekki alveg að fara með þetta en ég held að þetta hafi verið einhvern veginn þannig.

Ég held að hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, yrði ekki mjög glaður ef hingað hefði komið inn fullyrðing um að við ætluðum að breyta þessu ráðuneyti og að þessi stofnun ætti að fara þangað, þetta yrði svona og þetta svona, og gjörið þið svo vel og komið nú og segið já. Þá held ég að hv. þingmaður hefði sagt að hér skorti á samráð og væri bara verið að bjóða þinginu upp á það að skrifa upp á verkefnalista.

Hér er boðið upp á samráð og við skulum ræða þetta í nefndum. Á síðustu orðum hv. formanns Sjálfstæðisflokksins mátti heyra að hann er sammála markmiði frumvarpsins um hagræðingu, um meiri skilvirkni og um allt sem þetta stefnir að. Þá skulum við bara vinna saman að því að ná niðurstöðu, góðri niðurstöðu fyrir okkur öll og gera það með jákvæðum hætti en ekki því niðurrifi sem ríkir í þessum sal.