138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ástunda ekki niðurrifsvinnubrögð hér, ég er einfaldlega að benda á augljósar staðreyndir. Ég benti t.d. á það áðan að tíu heildarsamtök buðu ríkisstjórninni samstarf við að vinna að þessum hugmyndum og að þau hefðu síðan skrifað forsætis- og fjármálaráðherra bréf þar sem þau lýstu vonbrigðum sínum með að slegið hefði verið á þær hugmyndir, að málið hefði verið unnið alla leið til þingsins án þess að látið væri reyna á þetta.

Fyrir utan þessi tíu heildarsamtök er þess getið í bréfinu að fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Samorku hafi líka lýst yfir þungum áhyggjum af þessum áformum. Ef hugmyndin er sem sagt sú að taka þetta mál hér inn í þingið bara til að efna til samráðs er það ágætt en það fer afskaplega illa saman við það sem segir í frumvarpinu sjálfu að niðurstaða þurfi að liggja fyrir strax á haustmánuðum. Það fer líka illa saman við efnisgreinar frumvarpsins sem eru í raun og veru ekkert annað en nafnabreytingar á nokkrum ráðuneytum og gildistökuákvæði. Ef það sem þingið á að afgreiða héðan sem lög er hvað ráðuneytin eiga að heita er samráðið til afskaplega lítils.

Hvernig hefði ég viljað sjá þetta? Hefði ég talað eins og hv. þingmaður gerði ráð fyrir ef hér hefðu komið fram útfærðar hugmyndir? Nei, ég hefði ekki gert það. Þær hefðu gefið tilefni til þess að taka málefnalega umræðu um það hvernig við ætlum nákvæmlega að gera þetta. En áður en slíkt útfært frumvarp hefði komið fram hefði ég gjarnan viljað sjá skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra, eftir samráð við ýmsa hagsmunaaðila, um hugmyndir um hvar menn ætluðu að ná hagræðingunni fram og aukna skilvirkni, skýrslu sem hefði verið afhent þinginu og tekin hér til umræðu. (Forseti hringir.) Ef frumvarp hefði síðan komið fram með útfærðum (Forseti hringir.) hugmyndum í kjölfarið á því (Forseti hringir.) þá hefði verið mjög vel vandað til verka.