138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í riti fjármálaráðuneytisins í desember 2008 er fjallað um sameiningarferli á vegum ríkisins og þar er vísað til þess að rannsóknir sýni að umfangsmiklar sameiningar skili þeim árangri sem vonast er eftir í eða undir 15% tilvika. Þetta kemur fram í riti frá fjármálaráðuneytinu. Maður veltir fyrir sér hvort búið sé að meta það hjá ríkisstjórninni, hjá hæstv. ráðherrum, hvort þetta muni virkilega vera hinum megin við þessi 15%.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í samþykkt sem gerð var á flokksráðsfundi VG í janúar þar sem skorað var á eða samþykkt í rauninni að endurskoða öll áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Þar er talað um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar o.s.frv., ég veit að hæstv. ráðherra þekkir þá ályktun. Það er ekki nein dagsetning á breytingum á Stjórnarráðinu í stjórnarsáttmálanum að því er ég veit. Hvers vegna í ósköpunum fer hann með þessum hætti í raun gegn samþykkt flokksráðs síns eigin flokks, (Forseti hringir.) frá því fyrir (Forseti hringir.) nokkrum vikum?