138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:49]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara benda á að ég held að það hafi verið þingsályktunartillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar fluttu á sínum tíma um stofnun matvælaráðuneytis þannig að maður mundi halda að sá flokkur væri tilbúinn að skoða þá hugmynd. Það væri þá spurning hvort Vinstri grænir mundu standa gegn því að stofna öflugt og flott matvælaráðuneyti.

Ég tók líka eftir því að rætt var um það að Framsóknarflokkurinn hefði verið með ákveðnar hugmyndir um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég hefði áhuga á að heyra hvort ráðherrann hefði kynnt sér þær og þá ekki endilega eins og við erum að tala um hér, sem sagt skipan, nafn á ráðuneytum og hvaða málaflokkar fara þar undir. Ég sat í þeirri nefnd sem vann ákveðna tillögu um breytingar á lögum um Stjórnarráðið á sínum tíma og skilaði af sér 2007. Þar var grundvallarbreyting á því hvernig við ættum að nálgast Stjórnarráðið og við vorum jafnvel mun róttækari en núverandi stjórnarflokkar í því að gefa ríkisstjórninni meira vald sjálfri til þess að skipta með sér verkum, (Forseti hringir.) frekar en löggjafinn, og að horfa á Stjórnarráðið sem ákveðnar grunneiningar sem væru byggðar upp á skrifstofum sem mætti þá færa reglulega á milli ef þess væri óskað.