138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist hv. þingmaður að mörgu leyti vera svipaðrar skoðunar og ég, að það væri æskilegt að skoða vel hvort ekki ætti að rýmka heimildir framkvæmdarvaldsins og hafa þetta þjálla í verki.

Það eru margir kostir við matvælaráðuneyti og vissulega erum við Íslendingar matvælastóriðja með okkar sjávarútveg, landbúnað og matvælaiðnað. En það eru líka margir kostir við öflugt atvinnuvegaráðuneyti sem fer með allar greinar hins almenna atvinnulífs þar sem landamærin hverfa. Hugsum okkur ferðaþjónustuna, sem er önnur til þriðja stærsta gjaldeyrisöflunargrein landsmanna. Hún hefur aldrei átt sitt ráðuneyti. Ég menntaðist í húsi vestur á Melum sem heitir Atvinnuvegahúsið af því að þar var atvinnumálaráðuneytið á sínum tíma. Kannski fer sagan í svolitla hringi.

Ég tel að það hafi marga kosti, t.d. núna í baráttunni við atvinnuleysið og þegar þörfin er meiri og knýjandi að styðja atvinnulífið og byggja það upp, að það eigi sér öflugt, burðugt ráðuneyti sem er þyngra í stjórnsýslunni, hefur meira vægi og er sterkara og burðugra með fleiri sérfræðinga sem það getur fært til o.s.frv. (Forseti hringir.) Það eru því miklir kostir í því eins og það geta verið kostir við matvælaráðuneyti.