138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er afar mikilvægt fyrir áætlun um sterkari stjórnsýslu á Íslandi. Með samþykki þess skapast góður grunnur fyrir skynsamlega hagræðingu í ríkisrekstri. Við höfum byggt upp ríkisrekstur og þjónustu sem gerir ráð fyrir tekjum sem við fáum ekki aftur í bráð.

Í efnahagslægðinni erum við neydd til að endurskipuleggja. Þar liggja einnig tækifærin til að byggja upp betra kerfi sem nýtir enn betur mannauð og starfsaðstæður. Færri og stærri ráðuneyti verða öflugri starfseiningar, og yfirsýn yfir málaflokka og þarfir þeirra sem nýta sér þjónustu ráðuneytanna verður betri og styrkir starfsemina. Of fámenn ráðuneyti takmarka möguleika til sérhæfingar. Einnig takmarkar fámennið sveigjanleika sem felst í því að færa starfsmenn á milli viðfangsefna eftir því sem álag gefur tilefni til. Fleiri ríkisstofnanir heyra undir hvert þeirra nýju ráðuneyta og samlegðaráhrif verða sýnilegri og sameining stofnana augljósari kostur. Því auðveldar þessi skipulagsbreyting ein og sér sameiningu stofnana en einnig þarf að sameina verkefni sem sinna má þvert á öll ráðuneyti.

Undirbúningur fyrir fjárlagagerðina árið 2011 er sérstakur að því leyti að samhliða þeirri vinnu er unnið að stórfelldri breytingu á ríkisrekstrinum. Sameining ráðuneyta sem sinna fleiri verkefnum á svipuðu sviði er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju. Skipulagsbreytingin er nauðsynleg til að ná fram hagræðingu á öllum sviðum ríkisrekstrar. Markmiðið er að við rekum færri og sterkari ráðuneyti og færri og sterkari stofnanir og allt fyrir minna fé en nú er gert. Hagkvæmni og gæði fara saman og því tel ég ákaflega mikilvægt að vinna frumvarpinu brautargengi.

Einnig finnst þeirri sem hér stendur að við ættum að ganga lengra. Við ættum að líta annað innan Norðurlandanna og veita hæstv. ríkisstjórn heimild til að breyta ráðuneytum eftir aðstæðum hverju sinni. Með því að festa í lög heiti ráðuneyta og hlutverk ganga breytingar á þeim og tilfærsla verkefna og starfsmanna eftir álagi og aðstæðum seinna fyrir sig en ef um opna heimild væri að ræða. Sveigjanleikann vantar í kerfið að þessu leyti.

Þann 13. júní árið 2007 var samþykkt breyting á lögum nr. 73/1969, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þar var gefin heimild um að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta. Sá möguleiki var fyrir hendi að fara þá leið við að fækka ráðuneytum og sleppa samráðsferlinu sem valið er með frumvarpinu sem hér er til umræðu. Á þetta vildi ég sérstaklega benda vegna umræðunnar áðan um vinnubrögð og skort á samráði hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu máli.