138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[14:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur verið fjallað bæði um form og efni þessa frumvarps og með formi er ég að vísa til bæði undirbúnings, aðdraganda, sem og forms frumvarpsins sjálfs. Varðandi efnið vil ég taka undir það sem áður hefur komið fram frá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins að við útilokum að sjálfsögðu ekki að gerðar verði breytingar á skipan ráðuneyta í landinu. Við tókum þátt í því fyrir þremur árum tæpum að gera ákveðnar breytingar og í þeirri umræðu sem þá átti sér stað kom fram að við teldum að það gæti komið til greina að gera frekari breytingar.

Varðandi efnisatriðin að öðru leyti ætla ég að láta mér nægja að segja að þetta frumvarp er óskýrt í allri framsetningu. Það hefur í rauninni ekki að geyma neina útfærslu á því sem kalla má efnisatriði málsins og þess vegna er erfitt á þessu stigi að fjalla svo nokkru nemur um efnið að öðru leyti en því sem sjá má í greinargerð, en þar er fyrst og fremst um að ræða almennt orðaðar yfirlýsingar en fáar tillögur sem hönd á festir. Það setur okkur þingmenn því í ákveðinn vanda að ræða þetta mál hér við 1. umr. hve margar eyður eru í málinu þegar þetta frumvarp er lagt hér fram. Það er stundum talað um eyðuákvæði í lögum en það má eiginlega segja að þetta frumvarp sé eitt stórt eyðufrumvarp eins og það er orðað.

Ég ætla í þessari stuttu ræðu að víkja aðeins að forminu því að það skiptir líka máli í þessu sambandi vegna tengsla við efnið að framsetningin og formið eru með þeim hætti að það er ekki svo auðvelt að átta sig á hinu raunverulega efnisinnihaldi.

Við tvær síðustu breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, annars vegar á haustþingi 2007 og hins vegar á sumarþingi í fyrra, 2009, sem voru talsvert umdeildar breytingar, voru lögð fram frumvörp sem fólu í sér miklu skýrari útfærslu á þeim hugmyndum sem lágu til grundvallar en hér er að finna. Það var ekki látið nægja að tiltaka breytingar á heitum ráðuneyta heldur voru lagðar fram tillögur, ákvæði, sem fólu í sér breytingar á ákvæðum annarra laga sem haldast í hendur við breytta skipan ráðuneytanna. Það gaf þingmönnum kost á því að sjá hvað var í pakkanum. Með því voru komnar af hálfu þáverandi hæstv. ríkisstjórna tillögur um það hvað fólst í pakkanum. Það er ekki fyrir hendi í dag með sama hætti. Almenn orð í greinargerð hafa ekki sömu merkingu og formlegar tillögur sem lagðar eru fram sem greinar í frumvarpstexta, það er allt annað mál.

Þetta skiptir máli vegna þess að þegar við hér á þingi erum að fjalla um mál og taka afstöðu til þess skiptir máli að menn átti sig á því hvað tillöguflytjendur eru að fara með framlagningu frumvarpsins. Þessar stóru eyður leiða hugann að því hvers vegna þetta frumvarp kemur fram á þessum tímapunkti. Af hverju gátu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn ekki beðið með að leggja þetta frumvarp fram þangað til það var tilbúið, þangað til búið var að vinna þá undirbúningsvinnu sem öllum má vera ljóst að á hreinlega eftir að fara fram áður en málið er fullmótað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?

Þá kunna menn að segja: Ja, er það ekki þingið sem er löggjafinn? Er það ekki þingið sem á að taka afstöðu til mála? Jú, það er rétt, þingið á að taka afstöðu til mála sem lögð eru fram á þingi. Ef hæstv. forsætisráðherra eða aðrir hæstv. ráðherrar eða hæstv. ríkisstjórn telja ástæðu til að leggja fram frumvörp er lágmarkskrafa að lagðar séu fram einhverjar skýrar tillögur. Þingið getur síðan tekið afstöðu til þeirra. Af þessari ástæðu finnst mér þetta frumvarp koma í mjög einkennilegum búningi.

Ég vísa til þess og bið hv. þingmenn, sérstaklega í ljósi umræðu sem átti sér stað snemma í umræðunni í andsvörum, að skoða frumvörpin frá 2007 sem ég átti þátt í að samþykkja, og síðan frumvarpið frá 2009 sem ég var talsvert á móti. Bæði fólu þau í sér miklu skýrari útfærslu á þeim tillögum sem lagðar voru fram af hálfu þáverandi hæstv. ríkisstjórna og í báðum tilvikum áttu þingmenn miklu auðveldara með að átta sig á því hvað var í pakkanum. Þetta er atriði sem ég vildi nefna á þessu stigi.

Í annan stað er auðvitað rétt, svo maður víki orðum að undirbúningnum, að undirbúningurinn virðist ekki hafa verið með þeim hætti sem ætlast má til varðandi mál af þessu tagi. Ég heyrði prýðilega ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hér áðan þar sem hann vísaði m.a. í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út 2007. Þess má geta að hv. þm. Atli Gíslason er samkvæmur sjálfum sér því að hann var, einkum þegar hann var í stjórnarandstöðu, mjög duglegur að benda mönnum á það, ráðherrum og stjórnarþingmönnum, ef honum þótti vikið frá leiðbeiningunum sem í handbókinni má finna í einhverjum efnum, og hann gerir það líka núna og ekki að ástæðulausu. Ég hef stundum velt því fyrir mér þegar ég hef skoðað stjórnarfrumvörp í þinginu núna á síðustu mánuðum og ekki síst á síðustu vikum hvort það sé einhver ákvörðun af hálfu ríkisstjórnar Íslands að hafa þessa handbók, sem unnin var af forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis í sameiningu, að engu, hvort hún er einskis virði eða einskis metin í dag. Það er önnur saga.

Undirbúningnum tengist líka samráð eða skortur á samráði. Það er eitt af þeim atriðum sem eru tiltekin í þessari ágætu handbók en það er góð regla við undirbúning lagafrumvarpa endranær að hafa samráð við þá aðila sem málið varðar, hvort sem um er að ræða skipulögð hagsmunasamtök, starfsmenn eða fulltrúa þeirra stofnana sem undir heyra o.s.frv. En af frumvarpinu sjálfu og greinargerðinni með því verður ekki ráðið að um slíkt samráð hafi verið að ræða og ég gat ekki heyrt á máli hæstv. forsætisráðherra hér áðan eða hæstv. fjármálaráðherra að þetta samráð hefði átt sér stað. Einungis var sagt að nú væri málið komið til þingsins og það væri þá kominn rétti tíminn til þess að eiga þetta samráð. Það er sjónarmið en það er í ákveðnu ósamræmi við það sem áður hefur verið sagt af hálfu þessarar ríkisstjórnar, bara svo dæmi sé tekið í sambandi við samráð.

Ég minni á að þegar breytingarnar fóru í gegn hér í fyrrasumar, 2009, var að nokkru leyti sama gagnrýni uppi af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ekki hefði verið samráð í aðdraganda málsins. Þá var meira samráði heitið í greinargerð með frumvarpi og í ræðum sem fluttar voru, m.a. ræðum hæstv. forsætisráðherra og í nefndaráliti þáverandi meiri hlutans í allsherjarnefnd, bara svo ég vitni beint í greinargerðina sem fylgdi frumvarpinu 2009. Verið var að fjalla almennt um breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnkerfisbreytingar, þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Við þær breytingar sem fram undan eru mun jafnframt verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila.“

Ekkert kemur fram um að slíkt samráð hafi átt sér stað. Þetta var í fyrra, þá var lofað samráði líka, það var lofað samráði þá, ítrekað í þingræðum, ítrekað í nefndarálitum. Þetta samráð virðist þó ekkert hafa átt sér stað. En nú þegar kemur nýtt frumvarp er aftur sagt: Ja, nú skulum við hafa samráð út af þessum breytingum.

Þetta er ekki mjög trúverðugt, hæstv. forseti, það er það ekki. Það gerir það auðvitað að verkum að maður hefur fyrirvara á þessu máli þegar það kemur hér fram, mikla fyrirvara.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri að þessu sinni, hæstv. forseti. Ég vildi bara árétta það sem kom fram í máli og svörum hv. þm. Bjarna Benediktssonar við upphaf umræðunnar vegna orða hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar áðan þar sem hann vísaði í tiltekin orð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að flutningur frumvarpsins væri viðbrögð við því.

Það er lykilatriði að það var Alþingi sem ákvað að setja á fót þessa rannsóknarnefnd og það var Alþingi sem ákvað að bregðast við skýrslu þessarar rannsóknarnefndar með því að setja á fót sérstaka þingmannanefnd til þess að meta viðbrögð þingsins, m.a. hvað varðar lagabreytingar, stjórnkerfisbreytingar og fleira þess háttar því að stjórnkerfismálin eru auðvitað að miklu leyti bundin í lög. Undir það hljóta þessi mál að heyra sem tengjast skipan ráðuneytanna. Þessi mál eru í höndum þingmannanefndarinnar og því má kalla það nokkurt bráðlæti af hálfu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar að fara með málið af stað á þessum forsendum núna án þess að gefa sér mikinn tíma eins og t.d. með því að bíða fram í september til þess að sjá að hvaða niðurstöðu hin ágæta þingmannanefnd kann að komast í þessum mikilvægu atriðum.