138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um að leggja niður hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason. Fyrir því eru færð ýmis rök en fyrst og fremst þau að aðgerðin sé nauðsynleg vegna efnahagsástandsins, það þurfi að spara. Þegar menn hins vegar lesa greinargerðina með þessu frumvarpi verður öllum ljóst að þar er eingöngu um fyrirslátt að ræða því að sparnaðurinn er enginn. Jú, það eru líklega flestir sammála um að það þurfi að spara, fækka ráðuneytum, endurskipuleggja og fækka stofnunum. En þegar menn skoða þetta frumvarp blasir við að það snýst ekkert um sparnað, heldur eitthvað allt annað. Enda hver er sparnaðurinn? Jú, það er talað um að það þurfi að spara svo mikið fyrir árið 2011 að við þurfum að skera niður og m.a. ráðast í þessar aðgerðir.

Þegar lesið er lengra sér maður að það fellur enginn sparnaður til á árinu 2011, þvert á móti má reikna með verulegri kostnaðaraukningu vegna þess að sameining er alltaf dýr, a.m.k. til að byrja með. Oft og tíðum hefur sameining, hvort heldur fyrirtækja eða stofnana, reynst dýrari til langs tíma litið líka — en alltaf til að byrja með. Þetta snýst ekki um sparnað á árinu 2011. Það stendur til að mynda ekki til að segja fólki upp. Hvar á þá sparnaðurinn að liggja? Jú, það er gert ráð fyrir því að með tíð og tíma muni einhverjir hætta störfum eða hugsanlega falla frá eða ákveða að skipta um starf innan ráðuneytanna. Þá verður hugsanlega ekki ráðið í stöðurnar aftur. Þetta er allt mjög óljóst. Menn gera ráð fyrir því að peningar sparist einhvern tímann í framtíðinni ef ekki verður ráðið í stöður þeirra sem hætta.

Það koma fram fleiri þversagnir í frumvarpinu. Á sama tíma er talað um mikilvægi þess að efla þessi ráðuneyti og ráða fleiri sérfræðinga á tilteknum sviðum til þess að fást við þau miklu verkefni sem í hönd fara. Ég man ekki betur en að hér hafi verið heilmikil umræða um mikilvægi þess að efla ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar vegna viðræðna við Evrópusambandið. Það var beinlínis kveðið á um að fjölga þyrfti starfsfólki til þess að geta sinnt öllum þeim verkefnum sem felast í viðræðuferlinu. Það var beinlínis kveðið á um það þegar farið var af stað í viðræður.

Reynt er að rökstyðja þetta með ýmsum kenningum. Þá þurfi ekki eins mikla útvistun verkefna og þá sjá menn aftur hversu augljós þversögnin er. Ef það á að spara og draga saman, hvers vegna mun þá ekki þurfa eins mikla útvistun verkefna? Og hvers vegna þarf þá ekki að reiða sig eins mikið á undirstofnanir við ráðuneyti og nú er? Þetta nær ekki nokkurri átt. Jafnframt er talað um að mynda stærri heild. Í greinargerðinni segir m.a. að ráðuneytin skorti nauðsynlega formfestu sem sé til staðar í stærri skipulagsheildum.

Nú hefur töluvert verið talað um að íslenskir bankamenn hafi státað sig af því að hér gengju hlutirnir svo hratt fyrir sig. Hér væri ekki þessi mikla formfesta sem væri annars staðar. Eflaust hefur það að hluta til leitt til þess hvernig fór. Það fór reyndar eins fyrir mörgum stórum bönkum sem voru með engu minna skrifræði. Þetta þýðir hins vegar ekki að skrifræði sé lausnin. Meira skrifræði á öllum sviðum er ekki lausnin á vandræðum okkar. Hér er sem sagt verið að tala um að búa til stærra bákn þar sem skrifræðið verður meira. Fleiri eyðublöð verða væntanlega fyllt út og sett í fleiri möppur. Allt minnir þetta dálítið á austurrísk-ungverska keisaradæmið á sínum tíma þar en menn festust í því að reyna að stýra öllu með formfestu, skrifræði, eyðublöðum og stærri stofnunum. Þeim var stöðugt þjappað saman, undir þeim urðu svo til nýjar minni stofnanir sem er hent inn í þær stærri og alltaf stækkaði báknið.

Þetta minnir líka á stofnun úr sögu Sovétríkjanna. Fyrst eftir byltinguna þurftu menn að samræma allar atvinnugreinar sem verið var að þjóðnýta. Búin var til stofnun sem hét Vesenkha sem var sovét um endurskipulagningu atvinnuveganna í Sovétríkjunum. Þar var öllu hent inn og reynt að skipuleggja allt sem eina heild. Lýsingin er mjög svipuð og markmið þessa nýja atvinnuvegaráðuneytis. Það gekk hins vegar ekki upp því að nokkrum árum seinna sáu menn meira að segja í Sovétríkjunum að hugsanlega væri betra að þeir sérhæfðu sig í tilteknum atvinnugreinum og þessu var skipt upp í fleiri ráðuneyti.

Í frumvarpinu sjáum við enn eina þversögnina þessu tengt. Á sama tíma og því er haldið fram að þetta snúist um að samþætta — alls konar frasar eru endurteknir í sífellu, ég held að samþætta sé algengasta orðið — alla mögulega hluti er líka verið að tala um að það eigi að slíta þá í sundur. Eitt það mikilvægasta er sjávarútvegurinn. Það á að slíta hann í tvennt og deila á milli atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Umhverfisráðuneytið á svo að segja til um það hversu mikið megi veiða og sjávarútvegsráðuneytið útfærir það síðan. Þetta á að gera til þess að samræma verndun og nýtingu, nokkuð sem Íslendingar hafa reyndar gert um áratugaskeið. Jú, kvótakerfið er umdeilt af ýmsum ástæðum en ekki vegna verndunarsjónarmiðanna. Þau eru mjög sterk og hafa gefið mjög góða raun, þannig að þetta er ekkert nýtt. Í marga áratugi hefur Ísland verið í fararbroddi í því að samþætta verndun og nýtingu, til að mynda á auðlindum sjávar. Þetta á að slíta í tvennt og skipta á milli ráðuneyta. Síðan á að bæta fyrir það með því að stofna nýtt ráð. Ráð á rússnesku er einmitt sovét. Það má segja að það eigi að stofna nýtt sovét um sjávarútveginn. Þar eiga að koma saman hinir og þessir aðilar frá ólíkum ráðuneytum til þess að samþætta það sem áður hefur verið samþætt á einum stað en á nú að slíta í sundur. Allt þetta þýðir tilfærslur fram og til baka. Fólk færist til í störfum, í húsnæði og þar fram eftir götunum. Vissulega þarf að ráðast í mikla endurskipulagningu þegar menn takast á við slíkt. En menn verða að spyrja sig: Erum við í aðstöðu til þess núna að setja starfsemi allra þessara ráðuneyta í algjört uppnám, ekki síst ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs sem líklega eiga fyrir höndum stærsta og flóknasta verkefni sem þau hafa tekist á við, viðræður við Evrópusambandið? Var ekki samstaða um að styrkja ráðuneytin til þess að standa í þeim viðræðum? Það má öllum vera ljóst að það styrkir ekki starfsemina ef fólki er fækkað og allir eiga að skipta um hlutverk og vita því ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Aðeins aftur að umræðunni um sparnað. Ég gleymdi að nefna þar að í hugmyndunum um að starfsmönnum kunni að fækka kjósi einhverjir þeirra með tíð og tíma að hætta, kannski 20 manns í ráðuneytunum öllum samanlagt á einhverjum árum, er gert ráð fyrir sparnaði eftir þann tíma upp á 160 milljónir á ári. En nei, þá er gert ráð fyrir því að greiða þurfi biðlaun og að þau verði 200 milljónir. Svoleiðis að sparnaðurinn í þessu öllu er vandfundinn. Breytir þó ekki því að það þarf að ráðast í verulega og róttæka endurskipulagningu eins og ýmsir þingmenn, ekki síst Framsóknarflokksins, hafa farið yfir og ýmsar leiðir eru færar í því. En með þetta upplegg sýnist mér að menn nái því versta úr stöðunni. Það er sem sagt fátt jákvætt við þessa nálgun og í raun stórfurðulegt að málið skuli koma til umræðu hér á þessum tímapunkti, löngu eftir að menn voru búnir að leggja fram þingmál sem átti að taka fyrir í þinginu. Það er ekki við öðru að búast en að menn velti því fyrir sér hvað býr raunverulega að baki.

Ég held að það blasi við flestum sem hafa fylgst með umræðunni að þetta snýst um pólitík, um völd og að treysta völd sumra á kostnað annarra. Það hefur verið áhugavert að hlýða á ýmsa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér í dag. Ég mundi gjarnan vilja gefa dálítið af tíma mínum til þess að þeir gætu talað meira. Tímanum er skipt á milli flokkanna en ef svo ber undir má færa hann á milli þeirra. Ég ætla að hætta að tala í bili og ef einhverjir af þingmönnum Vinstri grænna vilja tjá sig meira um málið vil ég gjarnan að þeir noti minn tíma í það. Ég mun hlusta af athygli. Annars skrái ég mig aftur á mælendaskrá.