138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á Stjórnarráðinu, þ.e. þar sem á að fækka ráðuneytum úr 12 í 9. Mig langar í upphafi máls míns að vekja athygli á því að þegar talað er um hvernig vinna eigi málin og það eigi að hafa samráð um hlutina hefði ég talið mjög eðlilegt, í ljósi allra ummæla hæstv. forsætisráðherra og margra annarra hæstv. ráðherra um breytt vinnubrögð, opna lýðræðislega umræðu og sjálfbæra, ef ég man þessar setningar rétt, þá hefði verið skynsamlegra og held ég óumdeilt að fela hv. allsherjarnefnd að semja frumvarpið frá grunni. Það hefði verið hinn eðlilegi samráðsvettvangur um þverpólitíska samstöðu að vinna málið þannig. Það er mín sýn.

Mig langar líka, virðulegi forseti, að vitna til skýrslu sem var unnin af hálfu fjármálaráðuneytisins. Þar segir að þegar opinberar stofnanir hafa verið sameinaðar hafi einungis í 15% tilfella tekist að ná þeim markmiðum sem lagt var af stað með. Hvað segir þetta okkur, virðulegi forseti? Það segir okkur einfaldlega að undirbúningsvinna hefur ekki verið nægilega vönduð. Það er það sem stendur upp úr. Þetta mál, sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir áðan, kemur að mínu viti algerlega óundirbúið inn í þingið. Hæstv. forsætisráðherra hendir málinu inn og segir: Nú er ég búin að búa til frumvarpið og nú skal ég hafa smásamráð við ykkur. Þannig er málið vaxið.

Það eru mörg önnur mál svona vaxin og strax kemur upp í huga minn mál sem við afgreiddum á dögunum og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram, sem var frumvarp um fjármálafyrirtækin. Í meðförum viðskiptanefndar voru gerðar gríðarlegar breytingar á því stóra máli, svo ég nefni nú ekki þau frumvörp sem hæstv. félagsmálaráðherra mælti fyrir um skuldastöðu heimilanna. Þau mál er sum hver verið að skrifa og búa til alveg frá grunni í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Hv. félags- og tryggingamálanefnd mun flytja ný frumvörp. Þetta er sú vandaða stjórnsýsla sem talað er um í dag. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason upplýsti áðan að þegar frumvarpið kom til umfjöllunar í þingflokki Vinstri grænna og hv. þingmenn vildu ræða efnislega um málið þá voru skilaboðin mjög skýr úr forsætisráðuneytinu. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar eða hlusta á raddir um hvernig megi hugsanlega laga málið til. Þetta eru mjög skýr skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra. Þetta er málið sem hún er búin að ákveða að leggja fram og þingflokkur Vinstri grænna hefur ekkert um það að segja. Þetta er hin nýja og opna stjórnsýsla, hin breyttu vinnubrögð á Alþingi sem búið er að boða. Auðvitað stendur þar ekki steinn yfir steini eins og margoft hefur komið fram í hverju málinu á fætur öðru.

Mér er það til mikillar furðu að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa lært af því þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði af sér ráðherradómi vegna þeirra vinnubragða sem voru ástunduð hjá hæstv. ríkisstjórn. Nei, það skal ekki hlustað þrátt fyrir það. Þó svo að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi sagt af sér ráðherradómi til að mótmæla vinnubrögðunum sem ástunduð voru í ríkisstjórninni sem hann sat í. Nei, hæstv. forsætisráðherra lærir ekki neitt. En samt segir hæstv. forsætisráðherra: Nú eru nýir tímar, opin lýðræðisleg umræða, efnisleg umræða um málin. Síðan þegar þingflokkur Vinstri grænna vill fjalla um frumvarpið þá eru skilaboðin mjög skýr: Nei, ykkur varðar ekkert um þetta mál. Þetta er málið mitt. Þannig eru þau opnu lýðræðislegu vinnubrögð sem verið er að boða. Þetta er bara orðagjálfur og ekki neitt annað. Því miður, virðulegi forseti, það á ekki að breyta neinu.

Ég vil líka taka upp það sem hv. þm. Atli Gíslason gerði að umtalsefni og eins hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Þeir benda á að samkvæmt bókinni sem þeir vitnuðu í, sem fjallar um undirbúning lagafrumvarpa, þá stangast frumvarpið á við verklag við samningu lagafrumvarpa. Þeir leggja fram bókun hjá þingflokki Vinstri grænna um að frumvarpið stangist á við handbók Stjórnarráðsins um hvernig skuli vinna að undirbúningi lagafrumvarpa. Hv. þm. Atli Gíslason er löglærður maður og hefur ekki setið á Alþingi í stuttan tíma og veit að mínu viti nákvæmlega um hvað hann fjallar í þessari bókun. En samt dugar það ekki til. Áfram skal keyra málið. Þetta er alveg hreint með eindæmum. Og síðan þegar kom efnisleg umræða og efnisleg gagnrýni frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, þá afgreiddi hæstv. fjármálaráðherra hann mjög snyrtilega og sagði: Þetta er bara tuð. Ég sé fyrir mér hvernig hæstv. fjármálaráðherra hefur afgreitt hv. þingmenn sína í umræðunni sem átti að eiga sér stað í þingflokknum. Þetta er bara tuð í hv. þingmönnum hans eigin flokks. Þetta eru þau vinnubrögð sem eru ástunduð á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti, og maður sér á hverjum einasta degi hvernig þetta er gert.

Skyldu hv. þingmenn sem ég vitnaði í áðan, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hugsanlega hafa efnisleg rök til að skoða málið betur? Jú, þeir hv. þingmenn hafa gert grein fyrir því í ræðum sínum. Þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafa áhyggjur af stöðu landbúnaðarins og sjávarútvegsins í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða kannski er réttara að segja aðlögunarferli stjórnvalda að Evrópusambandinu. Það býr að baki þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fjalla um þessi mál. Það er ekkert annað sem býr að baki. Svo geta menn snúið út úr því og sagt að þeir séu hugsanlega að verja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svo hann missi ekki stólinn sinn. Það er útúrsnúningur, alger útúrsnúningur. Það er fyrst og fremst sú grunnhugsun sem kemur fram hjá þessum hv. þingmönnum. En þá er því snúið þannig að auðvitað verði Samfylkingin að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því hann hefur þvælst fyrir og verið með efnislega, réttmæta gagnrýni á aðildarferlið eða aðlögunarferlið sem hafið er. Þetta er með ólíkindum, virðulegi forseti, en svona er þetta unnið. Þingreyndir menn segja að þetta sé sannarlega alltaf að versna og slæmt var það fyrir. Alveg hreint með ólíkindum. Svo koma hæstv. ráðherrar fram og segja: Við búum við nýja tíma, en þeir eru ekki til batnaðar. Þeir eru til vansa og menn ættu að læra af því sem búið er að fjalla um, læra af mistökum sem hafa átt sér stað og standa við fyrirheitin um ný og breytt vinnubrögð í stað orðagjálfurs.