138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[16:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um það stóra álitamál hvernig við förum með vatnið á okkar kæra Íslandi, hvort það verði að meginhluta í höndum landeigenda eða fólksins sem býr í þessu landi, almennings. Stór orð hafa verið látin falla í umræðunni, bæði úr þessari pontu og víðar í samfélaginu, og jafnt hefur verið rætt um einkavæðingu á vatni og þjóðnýtingu á vatni. Hvort tveggja er fullöfgafullt í umræðunni enda er verið að reyna að fara einhvers konar bil beggja í þeirri stóru þrætu sem hefur reyndar spannað áratugi og gott betur. Upphaf vatnalaganna sem hafa verið í gildi frá 1923 má rekja til mikilla deilna um þetta mál um það leyti sem Íslendingar voru að öðlast sjálfsstjórnarrétt enda voru vatnsréttindi þá mjög til umræðu í samfélagi okkar og mjög leitað til þess að virkja ár og vötn á Íslandi. Nægir þar að nefna sögu stórskáldsins Einars Benediktssonar sem fór mikinn á því sviði. Upp úr því var reynt að setja vatnalög til frambúðar og það tókst með erfiðismunum eftir margra ára þrotlausa vinnu með lögunum frá 1923 sem í reynd eru enn í gildi. Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál. Pólitísk sýn mín hefur ávallt verið sú að ekki megi kasta hagsmunum almennings fyrir róða í þessu máli. Vötn og ár eru hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar, hluti af því sem fólk vill hafa greiðan og skilmerkilegan aðgang að.

Vitaskuld þarf líka að tryggja nýtingarrétt landeigenda. Nú er svo komið að um 75% af landsvæðunum sem hér eru til umræðu tilheyra ríkinu en 25% landeigendum. Vitaskuld þarf að tryggja rétt þeirra og taka af öll tvímæli en að mínu viti var gengið of langt á rétt almennings í lögum nr. 20/2006 og sáttin slegin út af borðinu og þarf að vinna bráðan bug á því máli.

Í ágætri samantekt vatnalaganefndar sem kom út í september 2008 er einmitt komið inn á þessi atriði, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi telur nefndin nauðsynlegt að orðalag réttindaákvæðis 4. gr. laganna verði endurskoðað þannig að tryggt verði að fullnægjandi tillit verði tekið til hagsmuna almennings. Í þessu sambandi minnir nefndin á þann löggjafarvilja að baki samþykkt vatnalaga nr. 20/2006 að ekki yrði um að ræða breytingu á inntaki réttinda landeigenda frá núgildandi rétti. Skilgreining réttindanna verður þannig að taka mið af því að þetta markmið náist og þarf því að endurspegla samspil réttinda landeigenda og almennings þannig að ljóst sé að réttindi beggja séu takmörkuð vegna hagsmuna hins eins og skýrt má ráða (Forseti hringir.) af jákvæðri skilgreiningu vatnalaga nr. 15/1923 á umráða- og hagnýtingarrétti landeigenda.“

Þetta er í raun lykilatriði þessa máls og ber að hafa í huga að ekki verði gengið á hag almennings við nýja lagasetningu (Forseti hringir.) og verður að horfa mjög til þess í þeirri vinnu sem fram undan er.