138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[17:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef margbent á að mér finnst við alltaf byrja á öfugum enda. Hér tökum við ákvörðun um að leggja niður Varnarmálastofnun án þess að það sé skýrt hver sé öryggis- og varnarmálastefna ríkisstjórnarinnar, hvað þá að við höfum sest niður og rætt þvert á flokka hvernig við viljum standa að þessum málum. Ég get því ekki tekið afstöðu, hvorki með né á móti því að leggja niður Varnarmálastofnun. Til þess skortir pólitíska stefnumörkun. Það skortir þverpólitískt samstarf til að taka afstöðu til þess hvernig við viljum standa að þessum málaflokki.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af þessum 50–60 störfum sem eru undir, störfum á Suðurnesjum, á svæði sem hefur hvað verst orðið úti í bankahruninu við að varnarliðið fór og ég hvet hæstv. ráðherra til að taka algjört tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um að (Forseti hringir.) fjölga frekar störfum á Suðurnesjum en fækka þeim.