138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[17:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Tilskipunin sem hefði átt að vera innleidd fyrir nokkrum árum er nú er loksins innleidd í íslenska löggjöf. Hún eflir rétt almennings til upplýsinga um erfðabreytta ræktun. Hún eflir rétt almennings til þess að hafa skoðun á hlutunum og koma þeim á framfæri. Það er allt í anda varúðarsjónarmiða umhverfisréttarins. Það er í anda góðrar umgengni um umhverfið og sjálfbærrar þróunar. Það er svo annað mál hvort þingheimur eða hv. umhverfisnefnd vill ræða hvort banna eigi eða takmarka með einhverjum hætti erfðabreytta ræktun hér á landi, hvernig eigi að gera það og hvernig þingheimur vilji standa að því. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra og hv. þingmenn í umhverfisnefnd til þess að ræða það og kynna sér málið frá öllum hliðum. Það er víða verið að ræða þessi mál (Forseti hringir.) í Evrópu, en það er hins vegar allt annað mál en það sem nú er verið að afgreiða hér.