138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls sem nefndin öll flytur og ég styð það mjög eindregið. Ég ætla ekki að vera langorður en ég tel að þetta sé mjög brýnt úrræði fyrir þá sem eru verst settir, um 10% heimila, sem eru um 10.000 manns. Hins vegar er ég ekki alveg viss um að þau úrræði sem þarna eru ákveðin og þau ferli sem þarna eru mynduð séu nægilega lipur til þess að ráða við allt þetta magn. Ég hef haft áhyggjur af því og þess vegna lagði ég til og fékk samþykkt að málið yrði unnið næstu vikuna og farið yrði í gegnum ferlin til að sjá hvort hægt sé að bæta þetta enn frekar. Ég mun vinna hart að því næstu vikuna með þeim sem vilja vinna með mér.