138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

671. mál
[17:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um eitt þeirra mála sem félags- og tryggingamálanefnd hefur haft til meðferðar og unnið upp í kjölfar þeirra athugasemda sem nefndin fékk vegna mála sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram.

Mig langar til að vekja athygli á því góða og mikla samstarfi sem hefur verið í nefndinni. Við höfum sest yfir málin í fullu samráði og reynt að finna bestu mögulegu leiðina sem við sjáum í stöðunni í dag. Hins vegar fagna ég því jafnframt að það sé sátt um að þessi mál verði yfirfarin af réttarfarsnefnd og reynt að kanna hvort það megi betrumbæta þau enn frekar. Ég vil vekja athygli á því að ég tel þetta samráð í nefndinni vera til mikillar fyrirmyndar. Ég tel það einstakt í þingsögunni, a.m.k. síðan ég tók hér sæti, að svona mikil samstaða ríki um eitt mál og ég óska okkur öllum til hamingju með það. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því að við vinnum saman að því, allur þingheimur, að leysa skuldavanda heimilanna.