138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[17:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í dag greiðum við atkvæði um þrjú frumvörp frá hv. félags- og tryggingamálanefnd. Þetta frumvarp sem varðar tvær fasteignir til heimilisnota, sem sagt möguleika fólks á að losa sig við aðra þeirra, er mjög mikilvægt úrræði fyrir þær fjölskyldur sem sitja uppi með tvær eignir.

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma sem kunna að leysa alvarlegan skuldavanda margra íslenskra heimila og er þetta mikill gleðidagur. Þótt því fylgi líka ákveðin óvissa fyrir okkur hér á löggjafarsamkundunni fögnum við því að sjálfsögðu að hér er um tímamótadóma að ræða fyrir íslenska lántakendur. Þessi úrræði sem við höfum unnið í góðri samvinnu miða að því að tryggja velferð þeirra fjölskyldna sem búa við hvað alvarlegastan vanda. Það er frumskylda löggjafans að tryggja velferð íslenskra fjölskyldna.