138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð við hæstaréttardómi um gengistryggð lán.

[10:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögmæt hafa vaknað ýmis álitamál um fordæmisgildi þessara dóma. Ljóst er að uppi er ágreiningur um hvort dómarnir hafi þýðingu um ýmis álitamál, svo sem um gengistryggingu húsnæðislána, gengistryggð lán til fyrirtækja og hvernig haga skuli vaxtaútreikningi við endurreikning þeirra gengistryggðu lána sem dæmd voru ólögmæt.

Það er mikilvægt að þessi ágreiningsefni sem leiða má líkur að að muni rata fyrir dómstóla fái eins skjóta úrlausn og mögulegt er. Þess vegna hef ég ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um meðferð einkamála sem tryggja að mál sem varða gengistryggð lán og álitaefni þeim tengd fái (Forseti hringir.) flýtimeðferð í dómskerfinu samkvæmt 123. gr. einkamálalaga. Ég óska eftir því, frú forseti, að það frumvarp (Forseti hringir.) fái sinn sess á dagskrá þessa þingfundar og verði tekið nú þegar til umræðu og atkvæðagreiðslu.