138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð við hæstaréttardómi um gengistryggð lán.

[10:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir frumkvæðið og útsjónarsemina. Ég held að hverjum manni sé ljóst að það er gríðarlega mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem nú er uppi um ýmis álitamál sem vaknað hafa í kjölfar dóms Hæstaréttar. Það er sannarlega brýn þörf á að fá úr þeim skorið sem allra fyrst. Þess eru ýmis dæmi að brugðið hafi verið út frá venjum, svo sem þinghléum, eftir hrunið vegna þess að hér þarf að bregðast við mjög sérstökum aðstæðum, gríðarlega miklum hagsmunum sem snúa að tugþúsundum heimila í landinu. Mér sýnist fullt tilefni til þess fyrir þingforustuna að ræða alvarlega hvort ekki sé tilefni til að taka til efnislegrar umfjöllunar það mál sem hv. þingmaður vakti athygli á og kanna hvort nokkrir meinbugir séu á því að standa með þessum hætti að verki og fá þá fljótt og vel (Forseti hringir.) skorið úr þessu máli.