138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði ekki um sparifjáreigandann, manninn sem leggur peninga til hliðar og treystir því að fá þá til baka. Verðtryggingin er haldreipi hans. Ef verðtryggingin á að skerðast er þetta haldreipi tekið frá manninum, hann treystir ekki lengur sparnaðinum og fer bara að eyða. Hvar ætla Íslendingar þá að fá peninga til þess að lána fyrirtækjum og einstaklingum til þess að kaupa og flýta neyslu?

Annað kemur líka inn í þetta. Hv. þingmaður talaði um að fjármagnið hefði allt sitt á hreinu. 55.000 manns töpuðu hlutabréfum og sennilega 10.000 í viðbót, ég fæ ekki upplýsingar um það, töpuðu stofnbréfum, sennilega um 100 milljörðum kr. Svo segir hv. þingmaður að fjármagnið hafi allt sitt á þurru, líka sparifé. Sparifé hefur rýrnað, ef það er mælt í evrum, um 30–40% á meðan skuldirnar mældar í evrum hafa lækkað, meira að segja verðtryggðar, ekki gengistryggðar, sem er reyndar búið að dæma núna ógildar. Það er því ekki rétt fullyrðing að fjármagnið sé á þurru. Vandamálið er að allt of fáir Íslendingar vilja spara og allt of margir vilja eyða. Vextir eru svona óskaplega háir á Íslandi vegna þess að það er skortur á lánsfé. Það er skortur á sparnaði og menn ná ekki vöxtunum niður vegna lögmálsins um framboð og eftirspurn fyrr en þeir auka sparnaðinn. Mér sýnist að allir séu núna að vinna í því að minnka hann, það er meira að segja hvatning til að taka út, og það er alveg ótrúlega óábyrgt. Ég held að hv. þingmenn ættu að vinna að því að gæta hagsmuna sparifjáreigenda (Forseti hringir.) fyrst og fremst.