138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga en ég hef tekið þátt í vinnu félagsmálanefndar varðandi þau mál öll sem fara í gegn í dag, þessi fjögur mál frá félagsmálanefnd. Ég verð að segja að það hefur verið mjög athyglisvert að taka þátt í þeirri vinnu. Hér hefur verið farið yfir hvernig þetta hefur gengið fyrir sig, allt frá því að félagsmálaráðherra lagði fram útfærslur sínar að frumvarpi sem nefndin hefur síðan gerbreytt. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að orðið var við beiðni okkar sjálfstæðismanna um að setja þennan þingdag í dag svo okkur í nefndinni gæfist tími til að fara yfir málið enn og aftur og þá með fulltrúum réttarfarsnefnda. Hér fer félagsmálanefnd inn á svið sem tengist óneitanlega skuldaskilaréttinum og því er mikilvægt að fá hæfustu sérfræðinga til að aðstoða okkur. Ég fagna því.

Ég tel að þetta sé mjög til bóta enda sjáum við öll að frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu umræðu. Þær eru allar mjög mikilvægar vegna þess að þrátt fyrir að okkur sé mikið í mun að lögfesta úrræði til handa heimilunum er auðvitað algjörlega ljóst að þau úrræði verða að virka, framkvæmdin verður að vera skilvirk og að sjálfsögðu verður þetta allt saman að vera í samræmi við aðra löggjöf, ég tala nú ekki um sjálfa stjórnarskrána.

Það er mjög mikilvægt að það ríki sátt um lagasetningu sem þessa og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn allt frá því að við byrjuðum — eða allt frá því að ég tók sæti á þingi að minnsta kosti — talað fyrir því að þegar þessi mál yrðu rædd, skuldavandamál heimilanna, reyndum við öll, sama hvaðan úr flokki við komum, að setjast saman að borðinu og finna lausnir. Þetta verkefni er risavaxið og það er ekki einfalt að finna leiðir til að forða því að fleiri heimili lendi í miklum greiðsluerfiðleikum. Þess vegna er mikilvægt að allir þingmenn leggi saman krafta sína til að vinna að því verkefni. Ég fagna því sérstaklega þeirri góðu vinnu og góða samstarfi sem unnið hefur verið í félagsmálanefnd. Það er til fyrirmyndar.

Ég vonast til þess að við sem hér sitjum og höfum tekið þátt í þessari vinnu lærum svolítið af þessu. Við erum að minnsta kosti búin að læra að þetta er hægt og það er spurning hvað þetta mun gefa okkur inn í framtíðina. Það er mikilvægt að þetta fór svona af stað og mikilvægt að við náðum að klára málið í mikilli sátt og samlyndi eftir langan feril.

Frú forseti. Úrræðin sem varða greiðsluaðlögun einstaklinga eru að sjálfsögðu úrræði til handa þeim sem eru þegar komnir í mikinn vanda. Þetta eru úrræði til handa þeim sem færu að öllum líkindum í erfið greiðsluvandaúrræði sem þegar eru til í lögum, svo sem gjaldþrot. Þetta er mikilvæg löggjöf þótt ekki kæmi til efnahagshrun og ég fagna því að hún sé orðin að veruleika. Ég veit að það hefur verið umræða í þinginu mörg undanfarin ár og áratugi um að nauðsynlegt sé að taka upp löggjöf sem þessa og ég geri mér grein fyrir því að það hafa aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn dregið vagninn í þeirri umræðu. Engu að síður styð ég heils hugar að þetta mál gangi fram vegna þess að þetta er mikilvæg réttarbót fyrir þá sem þurfa á þessum úrræðum að halda.

Eins og fram kemur í textanum er markmið laganna að gera fólki í greiðsluvanda kleift að ná tökum á fjármálum sínum. Skilyrði fyrir því að leita eftir þessu úrræði er að skuldari sé ófær um að standa í skilum eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þetta er því úrræði fyrir þá sem eru þegar komnir í mikinn vanda. Þess vegna hef ég nokkrar áhyggjur af því að menn hafi miklar væntingar um að þessi löggjöf muni bjarga öllum heimilum landsins. Það er ekki þannig, því miður. Hins vegar er hún til þess fallin að aðstoða þá sem eru komnir í mikinn vanda.

Mikið hefur verið rætt í þinginu í vetur og fyrrasumar um hvernig eigi að hjálpa heimilum landsins að komast aftur almennilega á fætur eftir efnahagshrunið. Umræðan hefur farið um víðan völl, verið gagnleg á stundum, en engu að síður hafa ekki komið fram neinar leiðir um almennar aðgerðir. Þrátt fyrir að menn séu ósammála um hverjar slíkar aðgerðir eru eða hvort yfirleitt sé þörf á þeim, höfum við sjálfstæðismenn lagt það fram í þingskjali, í tillögu til þingsályktunar um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála, að flokkarnir taki sig saman og skipi þverpólitíska nefnd til að fara yfir það hvert svigrúmið sé hjá fjármálastofnununum til að fara í almennar aðgerðir. Þegar fyrir liggur hvert svigrúmið er, má skoða hvort hægt sé að fara í slíkar aðgerðir og með hvaða hætti það væri best gert. Ég skora á háttvirta félaga mína í félagsmálanefnd að koma til liðs við okkur og sjá til þess að þessi vinna fari af stað. Það er liðið rúmlega eitt og hálft ár frá hruni og við höfum talað fyrir þessu í heilt ár.

Auðvitað hafa komið fram vísbendingar og menn hafa reynt að vinna í þessa átt. Það er erfitt að setjast allir saman, allir flokkar, en við verðum að sýna þjóðinni að við þorum að taka upp breytt vinnubrögð. Við höfum gert það í félags- og tryggingamálanefnd og ég er mjög stolt af því að hafa tekið þátt í þeirri vinnu. Auðvitað hvessir stundum í svona þverpólitísku samráði en það er einfaldlega eitthvað sem þroskar mann, þroskar umræðuna og reynsla mín er að slíkt starf leiði yfirleitt til farsællar niðurstöðu. Þrátt fyrir að ekki hafi komið fram nein tillaga eða neitt boð um slíkt af hálfu stjórnarflokkanna, vonast ég engu að síður enn til þess að slík vinna fari af stað, standi yfir í sumar og komi til með að skila áliti í haust. Ég tel að það sé mikilvægt vegna þess að við sleppum aldrei við þessa umræðu.

Við afgreiðum löggjöf frá þinginu í dag til handa þeim heimilum sem eru í miklum vanda. Þá er ósvarað spurningunni: Hvað með almennar aðgerðir? Ég held einfaldlega að það sé best að við áttum okkur öll á því að þeirri spurningu verður að svara á annan hátt en þann sem hæstv. forsætisráðherra hefur gert með því að segja að með þeim frumvörpum sem lögð voru fram af hæstv. félagsmálaráðherra væri búið að svara öllum þeim spurningum varðandi skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórninni væri kunnugt um. Ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. forsætisráðherra fór aðeins fram úr sér þarna. Alltaf eru að koma upp ný sjónarhorn á þetta stóra verkefni. Við hljótum öll að sjá að við verðum að fara í þetta á heiðarlegan hátt þannig að allir hafi aðgang að þeim upplýsingum sem þörf er á til að geta reiknað út möguleikann á því að fara í almennar aðgerðir og þá með hvaða hætti.

Við höfum reynt að gera þetta á eigin vegum en það er hins vegar afskaplega erfitt að nálgast réttar, uppfærðar upplýsingar enda eru þær í sumum tilvikum ekki tiltækar á einum stað þar sem hægt er að ná í þær. Ég tel engu að síður að það sé reynandi að setja fram þessa áskorun á síðasta degi fyrir þinghlé til að athuga hvort hún veki einhver viðbrögð. Ég er sannfærð um að þetta sé leiðin sem við eigum að fara og hún muni skila árangri, muni að minnsta kosti skila svörum um hvað sé hægt að gera og þá hvernig hægt er að koma til móts við þau heimili sem eru í skuldavanda en þó ekki í það alvarlegum skuldavanda að þau uppfylli skilyrði til að nota þessi úrræði.

Ég tel nefnilega að meginmarkmið okkar eigi að vera, þrátt fyrir að við séum að fara fram með þessa ágætu löggjöf og samþykkja hana, að forða því að fleiri þurfi að nýta sér þessi úrræði. Það hlýtur að vera markmið okkar. Í þessum pakka sem við afgreiðum í dag eru því miður afskaplega fá úrræði sem munu hafa þau áhrif. Frumvarpið um tvær fasteignir gæti hjálpað ákveðnum hluta fólks sem mundi ella lenda í miklum vandræðum, ég vona það. Að því frátöldu er ekkert annað í þeim pakka sem forðar því að fleiri þurfi á úrræðunum að halda. Sú vinna er því eftir. Við eigum ekki að láta hugfallast þótt verkefnið sé stórt og erfitt, við verðum einfaldlega að vaða í þetta og ég hef lýst því hér hvaða aðferðafræði ég tel besta í slíkri vinnu.

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur í tvígang, á þessu þingi sem nú stendur yfir og eins á sumarþingi, um aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Við höfum farið yfir með hvaða hætti við sjáum fyrir okkur hvernig rétta eigi við íslenskt efnahagslíf. Það er í rauninni stóra spurningin í öllum málum sem við ræðum á þinginu, hvort sem við ræðum skuldavanda heimilanna eða stöðu landbúnaðarins og nánast í hverju einasta máli. Efnahagshrunið er stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag, að rétta úr kútnum eftir það. Það er verkefnið sem við eigum að einbeita okkur að, ekki að elta einhver villuljós, eins og t.d. aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem ég hef rætt hér við annað tilefni.

Til að við getum einbeitt okkur að verkefninu tel ég best að við vinnum þetta svolítið saman, förum hvert yfir tillögur annars. Við höfum lagt fram efnahagstillögur okkar og ég tel mikilvægt að við reynum í sumar, þrátt fyrir að það sé að koma frí, að hugsa málin, setja einhverja vinnu af stað þannig að við komum ekki blönk til þings í september og ég tala nú ekki um í október. Ef kortleggja á almennar aðgerðir og hvort mögulegt sé að fara í þær, er það auðvitað flókið mál. Ég hef alltaf haldið því til haga að það er ekki einfalt að vinna úr afleiðingum hruns íslensku bankanna. Þeir flokkar sem sitja í ríkisstjórn eru alls ekki öfundsverðir af því hlutverki, ég tel ekki svo vera. Hins vegar er mikilvægt að menn einbeiti sér að stóra verkefninu og stóra verkefnið er að rétta úr kútnum og reyna að koma efnahagslífinu aftur af stað eftir hrunið.

Það besta sem við getum gert fyrir íslensk heimili í dag er að skapa þær aðstæður í samfélaginu að fólk fái atvinnu. Það á að vera stóra markmið okkar. Ríkið eitt og sér mun ekki bjarga okkur út úr efnahagskreppunni. Það eru einstaklingarnir sem eiga eftir að koma okkur upp úr lægðinni. Það er frumkvæði, kraftur og elja einstaklinganna sem mun gera það, ég er algjörlega sannfærð um það. En þá má ekki vera búið að skapa þá umgjörð að skattumhverfið sé þannig að menn séu lattir til að vinna og skattpíningin sé orðin þvílík að það borgi sig frekar að vera heima á atvinnuleysisbótum en að fara út og reyna að bjarga sér sjálfur. Þetta er verkefni sem ég tel að þingmenn allir eigi að hafa í huga og hafa áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem mér sýnist vera til staðar í íslensku samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að þeir fjölmörgu aðilar sem stóðu upp af fullum krafti við hrun bankanna og sögðust ætla að berjast fyrir því að efla atvinnulíf, að kraftur þeirra fari dvínandi vegna þess að stjórnvöld hafa ekki borið gæfu til að skapa þau skilyrði sem ýta undir eljuna, kraftinn og hugmyndaauðgi einstaklinganna.

Ég hef áhyggjur af þessu og ég tel að við eigum að koma til þings í haust og vera þá búin að hugsa í lausnum, sama hvar í flokki við erum, um hvernig við ætlum að koma því svo fyrir að ríkið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu heldur styðji við bakið á einstaklingunum svo okkur gangi hraðar og betur að byggja upp íslenskt efnahagslíf eftir hrunið. Ég tel að við eigum öll að einhenda okkur í þetta verkefni. Það eru kannski ekki allir sammála mér, gamlir verkalýðsleiðtogar í salnum og fleiri, en til að heimilin og fjölskyldur okkar nái að rétta úr kútnum verður að skapa þeim þá umgjörð að mögulegt sé að sækja sér vinnu, að það sé vilji til þess að sækja sér vinnu og stutt sé við bakið á þeim sem fá góðar hugmyndir.

Þetta er stóra verkefnið. Engu að síður eru þau verkefni mikilvæg sem félags- og tryggingamálanefnd hefur verið í að vasast í á undanförnum vikum. Ég fagna því að frumvarpið sé komið fram. Reynslan mun síðan skera úr um það hvort löggjöfin sé að öllu leyti fullnægjandi. Þannig er það venjulega þegar við förum í viðamiklar breytingar. Ég tel að félags- og tryggingamálanefnd hafi unnið þetta mál eins vel og henni var nokkur kostur, sérstaklega í ljósi viðbótartímans sem gafst. Ég tel að hv. þingmenn í félags- og tryggingamálanefnd hafi í raun og veru unnið ákveðið þrekvirki. Mig langar að nota tækifærið til að þakka ágætum félögum mínum sem þar sitja, fyrir samstarfið. Ég hvet okkur öll og brýni okkur enn einu sinni til að láta þetta vera merki um þau vinnubrögð sem við ætlum að sýna í framtíðinni. Við getum þetta.