138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[12:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Þetta er vandi sem kom í ljós eftir hrun. Áður hafði verið tiltölulega auðvelt eða fram til svona 2007 var tiltölulega auðvelt að selja fasteignir og þá tóku menn þá áhættu sem áður fyrr var talin ótæk að menn keyptu eign án þess að hafa selt þá gömlu. Gamla reglan var sú að menn keyptu aldrei fyrr en þeir voru búnir að selja gömlu eignina. En þetta breyttist og menn tóku þessa áhættu og sitja uppi með tvær eignir sem falla í verði og eru með skuldabréf sem hækka í verði og lenda þar af leiðandi í óleysanlegri stöðu.

Frumvarpið gengur út á það að haldið sé eins konar uppboð á þeirri eign sem maður ákveður í samráði við umsjónarmann að skila. Um það uppboð er fjallað í 6. gr. og er það afskaplega mikilvægt og snjallt, ég lít á það sem kjarnastykki frumvarpsins. Á frumvarpinu voru gerðar þó nokkuð miklar breytingar sem beinast að þessu kjarnastykki.

Vandinn sem kemur upp er tvíþættur, annars vegar ef eignin sem er skilað er yfirveðsett, þ.e. ef kröfur sem á henni hvíla eru hærri en matsverðið. Þá er kröfuhöfum gefinn kostur á að flytja veðið yfir á hina eignina sem maðurinn á og þeir munu yfirleitt velja þá leið vegna þess að þá helst krafan áfram, maðurinn skuldar hana, jafnvel þó að sú eign sé yfirveðsett og ef maðurinn fer í greiðsluaðlögun eiga þeir kröfuhafar möguleika á því að fá eitthvað upp í kröfur sínar. Þeir munu því yfirleitt alltaf velja að flytja veðið. Ef þeir gera það ekki, er það bara fínt, þá lækkar skuld skuldarans sem því nemur vegna þess að hann losnar við allar þær kröfur sem fylgja eigninni sem skilað er.

Ef eignin er undirveðsett, þ.e. ef kröfurnar ná ekki matsvirði samanlagt, er illt í efni og var reynt í nefndinni að leysa þann vanda hvað gerist með þá eign sem skuldarinn á í eigninni sem er skilað. Farin var sú leið að gefið er út skuldabréf með ákveðnum kvöðum á þá veðhafa sem eru á undan. Þetta er lausn sem ég hef dálitlar efasemdir um og sé ekki alveg að gangi upp, ég vildi að sú krafa færi á fremri veðrétt með einhverjum afskriftum, jafnvel 60%, en menn töldu að það væri of meiðandi fyrir eignarréttinn að flytja kröfuna fram fyrir síðasta veðrétt þannig að hún yrði næstsíðust. Núna er hún síðust og það á að gæta hennar þegar eignin er seld. En þá er að sjálfsögðu lítill hvati hjá eiganda eignarinnar sem er veðhafinn á síðasta veðrétti á undan þessu tryggingarbréfi, hann hefur í sjálfu sér lítinn hvata til þess að hækka verðið þannig að skuldarinn fái eitthvað upp í sitt, en honum ber að sjálfsögðu að gera það. Ef söluverðið er gróflega of lágt er hægt að gera athugasemdir við það.

Það eru gerðar gífurlegar breytingar á þessu frumvarpi og ég held að þær séu flestar til bóta og segi manni að þessi átta daga bið hefur vonandi skilað sér í betri framkvæmd og skilvirkari og einfaldari lagasetningu.

Ég flyt breytingartillögu við þetta frumvarp, frú forseti, en þar er sama hugsunin í frumvarpinu eins og áður, að skuldari þurfi að hafa eitthvað fyrir þessu. Í umsókninni á hann að skila alls konar eyðublöðum o.s.frv. og hlaupa á milli skrifstofa. Reyndar er sagt að umboðsmaður eigi að hjálpa honum við þetta en allar þessa upplýsingar hefur umboðsmaður rafrænt. Í rauninni þyrfti maðurinn bara að skila nafni sínu og kennitölu og segja hvaða eignir hann vill að falli undir þetta. Svo bæti ég inn að geta skuli um þær eignir sem ekki eru á almennum skrám, þ.e. hjá fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum eða Íbúðalánasjóði, en það getur verið erfitt að finna kröfuhafann þar. Að öðru leyti liggur þetta allt saman fyrir hjá venjulegu fólki og mér finnst alveg ástæðulaust að láta fólk hlaupa út um allan bæ og valda vinnutapi og vinnutjóni hjá opinberum starfsmönnum og sjálfu sér, ekki veitir nú af að afla tekna til að borga skuldirnar. Ég legg því til að menn samþykki þessa breytingartillögu sem er mjög mikil einföldun á þessu ferli þegar menn sækja um og minnkar vinnu við þetta allt saman. Ég hugsa að þeir skuldarar sem í þessum vanda eru verði þakklátir fyrir ef þeir þurfa bara að skila kennitölu og nafni og segja hvaða eignum eigi að skila. Menn sögðu að skuldarinn yrði að leggja eitthvað á sig til að hann kynni að meta þetta og ég stakk upp á því að hann yrði þá látinn labba upp á Esjuna.