138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[12:41]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem í ræðustól til að fjalla um heimilispakkann svokallaða í heild án þess að ég ætli að setja á langa ræðu. Það er sérlega ánægjulegt að hafa fengið að leggja þessu langa baráttumáli jafnaðarmanna lið á lokametrunum því að eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á fyrr í dag hefur þetta verið baráttumál hæstv. núverandi forsætisráðherra um langt árabil og leitum við nú, eins og hún hefur gert, í smiðju hinna Norðurlandanna og til norræna velferðarkerfisins um leiðir til að standa vörð um hag skuldara en ekki hag þeirra sem lána.

Líkt og aðrir nefndarmenn í hv. félags- og tryggingamálanefnd vil ég taka undir þau góðu orð sem hér hafa fallið og þær ástarjátningar sem farið hafa á milli nefndarmanna. Fyrir mig, nýliðann á Alþingi, hefur það verið alveg einstaklega gefandi og skemmtilegt að taka þátt í þessu verkefni og þessu starfi félags- og tryggingamálanefndar. Ég hef oft hugsað sem svo, og undrast það með sjálfri mér, eftir þessa reynslu, í margar vikur núna, og við höfum lagt nótt við dag, hvers vegna í ósköpunum þetta sé ekki hið eðlilega verklag. Mér finnst það svo eðlilegt verklag, þegar miklir hagsmunir eru augljóslega í húfi, eins og hér er rætt um, að við förum upp úr pólitískum skotgröfum og tökum höndum saman eins og við höfum gert. Ég tek heils hugar undir ræður fyrri þingmanna sem hafa komið í ræðustól um að þetta eigi að vísa okkur leiðina til framtíðar, svona verklag þar sem við tökumst að sjálfsögðu á, okkur greinir á um ýmsar áherslur, en við erum ákveðin í því að láta málið ná fram að ganga með hagsmuni íbúa landsins í huga.

Það úrræði sem hér er lagt til, eða hluti af heimilispakkanum, er m.a. stofnun nýs embættis sem heitir umboðsmaður skuldara. Eins og ég kom inn á áðan er þetta nokkuð þekkt úrræði á Norðurlöndunum og hefur verið þar við lýði í 15–20 ár. Það er stundum svo að neyðin kennir naktri konu að spinna eins og orðatiltækið segir og ég held að þetta eigi ágætlega við núna. Við þurftum heila kreppu til að átta okkur á því að við þurfum að standa vörð um hag skuldara ekki síður en þeirra sem fjármagnið eiga. Þetta eru mikil tímamót í sögu þeirra sem illa standa, að þeir geti núna staðið uppréttir og fengið bót á sínum málum án þess að vera niðurlægðir í sölum bankanna og biðja um ölmusu þar. Þrátt fyrir viðleitni bankanna til að taka á skuldavanda heimilanna hafa greiðsluúrræði þeirra ekki dugað sem skyldi og eftir því sem ég best fæ vitað eru það aðeins um 300 manns sem hafa fengið lausn sinna mála í bönkunum. Það kann að skýrast af því að þetta hlýtur að vera óþægilegt fyrir skuldara. Þeir eru ekki í jafnri stöðu þegar þeir koma til bankastjórans og biðja um greiðsluaðlögun, þeir standa ekki jafnfætis bankanum í þeim efnum, og þess vegna er allur þessi heimilispakki, frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, greiðsluúrræði þeirra sem eiga tvær fasteignir o.s.frv., gríðarlega mikil réttarbót fyrir skuldara þessa lands sem eru mjög margir. En eins og áður hefur komið fram, í máli annarra þingmanna, er þetta langt í frá að vera almenn aðgerð fyrir alla skuldara landsins. Um það getum við ef til vill vélað og rætt og fengið svör við ýmsum spurningum í þeim efnum eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lagði til í ræðu sinni í dag og ég get heils hugar tekið undir, þ.e. ég held að það sé orðið löngu tímabært að við tökum þá ákvörðun hvort fara eigi í alhliða aðgerðir til að rétta hag heimila landsins eða hvort við eigum að staldra við og einbeita okkur að sértækum úrræðum eins og greiðsluaðlögun einstaklinga sannarlega er og önnur þau mál sem við ræðum í dag.

Ég vil líka vekja athygli á Ráðgjafarstofu heimilanna sem hefur verið starfandi frá 1999, ef ég þekki það rétt. Henni leggja nú lið ýmis sveitarfélög, stéttarfélög, félags- og tryggingamálaráðuneytið, Bændasamtökin og fleiri en það sem er að gerast núna er sérstakt, og það hefur líka vakið athygli á Norðurlöndunum, en það er sú staðreynd að það eru fjármálastofnanir sem munu greiða rekstur embættis umboðsmanns skuldara.

Það er mjög sérstakt og það er mjög ánægjulegur áfangi að við skyldum ná því fram að það eru fjármálastofnanirnar sjálfar sem greiða þetta þar með talið Íbúðalánasjóður. Við getum því ekki sagt að kostnaður falli alfarið á aðra en ríkið en það mun draga úr framlögum ríkisins þannig að þetta er ekki aukin byrði á ríkissjóð að setja á laggirnar nýja stofnun umboðsmanns skuldara.

Mér finnst líka vert að vekja athygli á því að nú starfar Ráðgjafarstofa heimilanna í Reykjavík en hugmyndin með umboðsmanni skuldara er allt önnur. Það er allt önnur nálgun og ekkert er því til fyrirstöðu, nema síður sé, að útvíkka starf umboðsmanns skuldara og að hann starfi um allt land. Það hefur svo sem ekki verið tekin ákvörðun um það en að því gefnu að starfsfólk Ráðgjafarstofu heimilanna fái að starfa hjá umboðsmanni skuldara skyldi maður ætla að sú kjarnastarfsemi verði staðsett í Reykjavík. En ég varpa fram þeirri hugmynd að verkalýðsfélög um allt land bjóði fram aðstöðu fyrir starfsmenn umboðsmanns skuldara þannig að fólk víða um landið geti nýtt sér þetta úrræði, þurfi ekki að fara til Reykjavíkur til að leita ráðgjafar heldur verði umboðsmaður skuldara á helstu þéttbýlisstöðum landsins og þess vegna víðar ef því er að skipta. Hér er átt við að fólk utan af landi geti farið um skamman veg, fengið skjól hjá þessum umboðsmanni og reynt að greiða úr sínum málum heima í héraði. Tölur frá Ráðgjafarstofu heimilanna sýna að um 75% sem þangað leita ráðgjafar eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Um það bil 10% eru íbúar á Suðurnesjum og aðrir koma þá annars staðar að. Þetta segir mér að þeir sem eru í greiðsluvandræðum í dag leita til bankaútibúa sinna úti á landi og eins og ég sagði áðan er það jafnræðismál að þurfa ekki að leita til banka, hér er komin upp allt önnur staða og það er sérstaklega ánægjulegt og mjög mikilvægt að við hugsum þetta strax í upphafi sem stofnun sem hefur aðsetur um allt land.

Eins og kom fram í framsöguerindi hv. formanns félags- og tryggingamálanefndar, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, er auk þess gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti gert þjónustusamning við lögmenn um allt land og þá er ekkert lengur því til fyrirstöðu að fólk geti borið niður hvar sem er til að komast í það skjól sem umboðsmaður skuldara verður fyrir þau heimili sem verst standa í landinu. Þetta mun einnig hafa í för með sér að til verða verðmæt störf úti á landi samhliða því að við styrkjum starfsemi umboðsmanns skuldara og það er ánægjulegt. Það er mjög mikilvægt að sem víðast verði starfandi öflugar þjónustustofnanir á vegum hins opinbera og kominn verði grundvöllur fyrir nokkra lögmenn að starfa úti um allt land. Það skiptir ekki svo litlu máli í þeim þrengingum sem við göngum nú í gegnum.

Virðulegur forseti. Ég held reyndar, eins og fram hefur komið í umræðunni fyrr í dag, að það sé spurning um að fara að skoða málefni skuldara og stöðu heimilanna upp á nýtt. En ég vil líka gera það að umtalsefni hvort við ætlum að hanga í sama farinu, ef svo má að orði komast, og viðhalda þeirri hugmynd að allir verði að eiga sitt eigið húsnæði á Íslandi. Er það grundvallarregla til þess að geta búið hér á landi að við eigum okkar eigið húsnæði? Ég segi nei. Við eigum að breyta þeim hugsunarhætti að hér sé ekki hægt að lifa með reisn þó svo að maður sé leigjandi. Við eigum að koma á virkum leigjendamarkaði og við eigum að gera það að jafnfýsilegum kosti og þeim að eiga húsnæði. En til þess þarf að sjálfsögðu að styrkja stöðu leigjenda, það er ótækt að leigusalar geti vísað þeim á dyr með litlum fyrirvara. Það þarf með öðrum orðum að reyna að breyta þeim hugsunarhætti að allir verði að eignast þak yfir höfuðið óháð því hvort fólk hefur yfirleitt burði til þess. Það er dýrt en það hefur kannski fyrst og fremst verið skjólið sem fólk hefur lagt á sig, skjólið sem því fylgir oftast að eiga sitt eigið húsnæði, en staðreyndin hefur kennt okkur að það er ekki alltaf raunin og sú kreppa sem við göngum í gegnum núna sýnir okkur að það er ekki alltaf öruggt að kaupa sitt eigið húsnæði.

Það er rétt að undirstrika að með þeim frumvörpum sem hér eru til umfjöllunar, svokölluðum heimilispakka, er lögð mjög rík áhersla á að fólk geti haldið húsnæði sé þess nokkur kostur þó svo að það sé líka viðurkennt að í sumum tilfellum mun greiðsluaðlögun einstaklinga ekki nægja til þess að fólk geti haldið og staðið í skilum með núverandi skuldbindingar og umboðsmaður þurfi þá að beina fólki inn á önnur úrræði, hugsanlega leigumarkaðinn. En grundvallarreglan er sú að fólk geti haldið því húsnæði sem það hefur í dag.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég enn og aftur ítreka þakkir mínar til samstarfsfólks í félags- og tryggingamálanefnd. Það veitti mér góða leiðsögn í upphafi þingferils míns og ég vona svo sannarlega að við eigum öll eftir að taka upp nýtt verklag þar sem við tökum höndum saman um að ná í gegn málum sem skipta verulegu máli í samfélaginu.