138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[12:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um umboðsmann skuldara. Þetta mál er upphaflega lagt fram af félags- og tryggingamálaráðherra en nefndin hefur haft það til meðferðar og gert á því nokkrar breytingar sem hafa haft jákvæð áhrif á stöðu málsins að mínu mati.

Einhverjir mundu segja að hægri maður ætti að standa í ræðustóli í dag og þvertaka fyrir að stofna ætti nýjar ríkisstofnanir og það er að sjálfsögðu verðugt umræðuefni. Hins vegar erum við með útfærslu sem felur í sér að við færum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna til umboðsmanns skuldara og breytum henni. Jafnframt er farin ný fjármögnunarleið. Gert er ráð fyrir að það séu kröfuhafarnir, þ.e. fjármálastofnanirnar, sem fjármagni stofnunina. Auðvitað verður dýrt að halda úti þessu batteríi, það er alveg ljóst, enda eru verkefnin mikil og stór. Maður hefur aðeins áhyggjur af því að það verði erfitt að anna eftirspurn á fyrstu mánuðum stofnunarinnar en í ljósi þeirra breytinga sem hugsanlega verða á umhverfi okkar í kjölfar dóma Hæstaréttar um gengistryggðu lánin jafnast þetta væntanlega að einhverju leyti út.

Ég fagna líka því sjónarmiði að umboðsmanni skuldara verði gert heimilt að gera samninga við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina. Nú er það ein af breytingartillögum félags- og tryggingamálanefndar að fela ráðherra að setja reglugerð um með hvaða hætti það skuli gert. Þarna held ég að komið verði meiri festu á það hvernig umsjónarmenn skuldaranna munu starfa og þá geta þeir aðilar sem gerður er samningur við hugsanlega einbeitt sér að þessu verkefni og sérhæft sig í því. Síðan er það hlutverk umboðsmanns skuldara að samræma verklag þannig að umsjónarmennirnir geri þetta allt á sambærilegan hátt. Það er mjög góð breyting. Stofnunin verður væntanlega talsvert umfangsmikil, til að byrja með a.m.k., en varanleg verður hún, það er ljóst. Við þurfum að haga seglum eftir vindi og hafa stærð hennar þannig að hún ráði við verkefnið en kaffæri ekki bankana og þá aðila sem eiga fjármagn.

Mig langar aðeins að fara yfir umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp á sínum tíma. Þar er lagt til að kostnaðurinn verði væntanlega 330 millj. kr. og á þessu ári um 230 millj. kr. en hins vegar er gert ráð fyrir að það fjármagn sem hingað til hefur runnið til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fari til stofnunarinnar. Eins er reiknað með að umboðsmaður skuldara innheimti gjald af lánastofnunum sem samsvari þessum gjöldum og sömuleiðis að það renni beint til reksturs embættisins. Það var upphaflega í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu. Ljóst er að þetta kostar fjármuni en þarna er þessi leið farin. Aðferðafræðin er til þess fallin að hægri maðurinn getur fellt sig við að það sé skoðað að fara þessa leið í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem íslenskir einstaklingar og heimili standa frammi fyrir í kjölfar bankahrunsins. Það er nauðsynlegt að við reynum að koma á því fyrirkomulagi að hægt sé að afgreiða mál skuldaranna, eða lánþeganna eins og kannski væri heppilegra að segja, hratt, vel og faglega þannig að það skili árangri og leiði til þess að menn standi sterkari eftir en áður.

Talsvert hefur verið rætt um hvert hlutverk umboðsmanns skuldara ætti að vera. Það er tilgreint í 1. gr. laganna og er talsvert umfangsmikið.

Það er í fyrsta lagi að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn yfir fjármál sín og að taka á þeim.

Í öðru lagi að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna. Þetta er nauðsynlegt til að ná öllum að sama borði og reyna að finna sameiginlega raunhæfa leið.

Einnig ber umboðsmanni skuldara að fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar samkvæmt því frumvarpi sem við ræddum fyrr í dag. Við í nefndinni leggjum síðan til þær breytingar á þessum lið að það verði hlutverk skuldara að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Þá er verið að skerpa á því hvað nákvæmlega umboðsmaður eigi að gera, því að hann á ekki að fara með allt vald og alla ábyrgð samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun.

Síðan ber umboðsmanni að veita ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig tekst til með það. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur sinnt þessu hlutverki að einhverju leyti eftir besta mætti en þetta verkefni verður mikilvægt í framtíðinni þegar stofnunin verður búin að festa sig í sessi.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur kom þessi stofnun til tals hjá félags- og tryggingamálanefnd í haust og menn vildu skoða þá leið að búa til þetta úrræði og réttarbót fyrir skuldarana. Ég tel að í umræðum og meðferð nefndarinnar hafi frumvarpið tekið mjög góðum og jákvæðum breytingum og því sé okkur fært að standa við bakið á þessum hugmyndum og samþykkja frumvarpið í dag. Ég fagna því. Við verðum líka að líta á öll verkefnin sem varða skuldavanda heimilanna sem eina heild. Það er ekki hægt að einblína á einn ákveðinn hlut heldur verðum við að horfa á sviðið í heild. Þess vegna varð úr, m.a. að tillögu okkar sjálfstæðismanna, að í þinginu fór af stað óformlegur samráðshópur til að reyna að fara sameiginlega yfir það hvaða frumvörp væru komin fram í þinginu sem vörðuðu þessi mál, hver þeirra ættu að ná fram á þessu þingi, hver væru fullbúin til þess og hver önnur við hefðum hug á að vinna betur fram til haustsins þannig að við gætum tekið þau til meðferðar þá. Af þeim málum tel ég mjög mikilvægt að við skoðum ákvæði varðandi hópmálssóknir, sérstaklega í ljósi nýliðinna atburða. Mér skilst að réttarfarsnefnd sé að skoða það. Það hefur verið lagt fram þingmál en það þarf að vinna betur, sem tengist kannski umræðunni sem var fyrr í dag varðandi aðstöðu þingsins. Ég vonast til þess, ég hef fulla trú á því og tel að það sé pólitísk samstaða fyrir því að finna leið til að bæta löggjöf okkar í einkamálaréttarfarinu þannig að heimild og möguleiki til hópmálssóknar verði að möguleika. Ég tel að við eigum öll að kynna okkur það mál í sumar og ganga svo vonandi samstiga í þá lagasetningu í haust.

Einnig hefur í allsherjarnefnd verið rætt um frumvarp varðandi fyrningarfrest, að stytta fyrningarfresti. Það eru að sjálfsögðu kostir og gallar við það, bæði fyrir skuldarana og kröfuhafana. Það er ekki bara kostur fyrir lánþegann að stytta fyrningarfrestinn. Það náðist ekki að klára þá umræðu en ég veit að nefndin ætlar að skoða málið frekar og þá með það í huga að hugsanlega verði hægt að koma fram með fullbúið frumvarp í haust. Það er gott að menn horfa á þetta heildstætt. Ég tel að það hafi verið mikilvægt að gera þetta svona. Í þeirri vinnu lögðum við sjálfstæðismenn líka áherslu á tillögu okkar um að skapa vettvang til að fara yfir almennar leiðir varðandi heimilin, vegna þess að eins og ég hef sagt fyrr í dag eru þau úrræði sem við erum að samþykkja í dag ekki fyrir öll heimili. Þau eru fyrir aðila sem eru komnir í mikil vandræði og við eigum þá eftir að fjalla um það hvort og hvernig við ætlum að koma til móts við önnur heimili til að forða því að fleiri þurfi á úrræðunum að halda.

Þess vegna lögðum við til í samráðshópnum að stofnaður yrði þverpólitískur hópur sem mundi vinna í sumar að því að fara yfir þetta mál. Er svigrúm til að fara í almennar aðgerðir og með hvaða hætti eiga þær þá að koma til? Ég fagna því að hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir tók undir þessi sjónarmið og ég er enn ekki búin að gefa upp vonina um að þessi hópur verði stofnaður. Það eru eftir nokkrir klukkutímar af þinginu og ég ætla að reyna að nota þá vel í þetta verkefni vegna þess að ég held að það sé best fyrir okkur öll, sama á hvaða skoðun við erum, sama hvort við erum sannfærð um að fara þurfi í almennar aðgerðir eða að það gangi einfaldlega ekki upp, þá verðum við engu að síður að setjast yfir þetta og svara þessari spurningu. Það gengur ekki að við stöndum í ræðustól og gagnrýnum tillögur annarra. Þess í stað ættum við að setjast saman að borðinu, skoða tillögurnar með opnum huga, fara yfir þær og reyna að finna bestu leiðina. Þetta er sú aðferð sem við sjálfstæðismenn teljum að sé best til að fara í það stóra verkefni að leysa skuldavanda heimilanna. Í þeirri umræðu megum við ekki gleyma því að fjölskyldurnar eru hornsteinn samfélagsins. Ef við erum að komast í þá stöðu að meiri hluti fjölskyldna lendi í miklum greiðsluerfiðleikum þá er þetta ekki eingöngu vandamál íslenskra heimila heldur vandamál íslensku þjóðarinnar og alls hagkerfis okkar. Við skulum öll átta okkur á því.

Frú forseti. Hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir ræddi þá spurningu hvort það væri nauðsynlegt að allir ættu húsnæði, hvort það væri eitthvert náttúrulögmál að það væri normið í íslensku samfélagi. Hv. þingmaður taldi að svo væri ekki og fannst að það væri ekkert að því að menn væru á almennum leigumarkaði. Að sjálfsögðu er ekkert að því en hins vegar er rík hefð í okkar samfélagi fyrir því að fjölskyldur fjárfesti í eigin húsnæði. Þetta er okkar menningargerð og samfélagsgerð. Ég vil að við höldum í hefðina og þá aðferðafræði í samfélagi okkar. Ég tel ekki rétt að kollvarpa henni og ég fagna því að þau úrræði sem við erum að samþykkja í dag uppfylli þetta sjónarmið.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram efnahagstillögur bæði á fyrra þingi í sumar og eins núna á þessu þingi þar sem m.a. er fjallað um skuldavandann. Þar reifum við hvernig við ættum að líta á það verkefni að leysa og treysta að nýju stöðu heimilanna. Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er einmitt að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði. Jafnframt teljum við mikilvægt að aðgerðirnar tryggi hag lántakenda ekki síður en lánveitenda og í dag eru stigin stór skref í þá átt.

Einnig teljum við nauðsynlegt að aðgerðir séu almennar. Það eigum eftir að fara í eins og ég gat um áðan.

Þá teljum við mikilvægt að viðhalda greiðsluvilja, m.a. með hvötum til uppgreiðslu skulda. Það er atriði sem við þurfum að fara betur yfir og kanna hvort hægt sé að gera einhverjar ívilnanir eða breytingar í þessa átt. Við teljum að aðgerðirnar sem við leggjum til séu ekki vinnuletjandi og jafnframt að þær leiði ekki til stórkostlegrar skattlagningar.

Þá teljum við að aðgerðir þurfi að vera auðskiljanlegar og gagnsæjar. Þar veit ég ekki alveg hvort okkur hafi tekist vel upp. Þessar aðgerðir eru tiltölulega flóknar en ef allir leggjast á eitt um að fara í öflugt kynningarstarf á úrræðunum og vel er búið að embætti umboðsmanns skuldara þannig að embættið geti í raun og sann haldið utan um öll þau verkefni sem því eru falin þá erum við hugsanlega búin að uppfylla þetta skilyrði. Hins vegar er ekki einfalt að búa til auðskiljanlega og gagnsæja verkferla á þessu sviði vegna þess að tilfellin eru svo mörg og ólík að það er ekki einhlítt að það sé hægt að gera það mjög einfalt. Þó verður að leggja sig fram við það og ég tel að þau frumvörp sem hefur verið kollvarpað í störfum félags- og tryggingamálanefndar beri þess einmitt merki.

Þá höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á að aðgerðir sem koma til vegna skuldavanda heimilanna leiði ekki til landflótta og að þær komi í veg fyrir frekara hrun á fasteignamarkaði.

Þetta eru þau leiðarljós sem við sjálfstæðismenn teljum að ætti að hafa í huga við þetta stóra verkefni. Í dag er stigið skref í þá átt að koma til móts við þau heimili og einstaklinga sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum en eftir er að koma með almennar aðgerðir sem stuðla að því að færri þurfa að nota þau.