138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjármálakerfið í framhaldi af niðurstöðu dóms Hæstaréttar. Hér er gamalkunnug plata á ferð. Eins og þetta hljómar í mínum eyrum er um að ræða að einhverju leyti hræðsluáróður ráðherra þar sem reynt er að stilla Hæstarétti og almenningi upp við vegg, að svona megi hlutirnir ekki vera í framtíðinni því að þá fari hér allt fjandans til eina ferðina enn. Ég hef heyrt þetta áður í Icesave-málinu.

Það sem komið hefur í ljós á fundum efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með bankastjóra Seðlabankans, formönnum Fjármálaeftirlitsins og formönnum lánastofnana er að sú mynd sem ríkisstjórnin hefur dregið upp er allt önnur en þessir aðilar segja. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim upplýsingum sem settar voru fram á mánudaginn, í gær og svo aftur í morgun. Þetta er ótrúlegt mál og það er ótrúlegt að horfa upp á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra reyna að knýja fram þá niðurstöðu sem þeir telja æskilega, að óverðtryggðir vextir Seðlabankans verði settir á þau gengistryggðu lán sem Hæstiréttur hefur lýst ólögleg.

Hæstiréttur sneri við ólöglegum gerningi í dómi sínum. Þar er verið að færa fjármuni til baka frá fjármálafyrirtækjum til almennings, sem fjármálafyrirtækin voru áður búin að taka af almenningi og færa til sín. Það er ekkert flóknara en það. Það er verið að færa fjármunina til baka — að vísu varð hér bankahrun í millitíðinni, það skiptir máli — og með því átti að vera reiknað í yfirfærslu bankanna en það virðist ekki hafa verið gert. Niðurstaða Hæstaréttar er gott mál. Við skulum ekki gleyma því að það sem lítur út fyrir að vera svartnætti í augum sumra, t.d. ráðherra og fjármálafyrirtækja, er þvert á móti björt nótt í augum þeirra sem skulduðu.

Þetta mál þarf að hafa sinn gang í framtíðinni og það þarf að brýna fyrir stjórnvöldum, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að þau eigi að gæta hagsmuna almennings. Þau eiga að knýja fram að fjármálafyrirtækin fari eftir dómi Hæstaréttar eins og hann féll 16. júní. Fjármálafyrirtækin hafa meira að segja haldið því fram að hægt verði að ákæra lántakendur gengistryggðra lána fyrir ólögmæta auðgun í kjölfar þessa dóms. Firring fjármálafyrirtækjanna sem komu fyrir efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd hefur verið með slíkum ólíkindum að það er greinilegt að þau ætla í stríð við almenning út af málinu. Sum þeirra hafa þegar lýst því yfir að þau muni senda næstu greiðsluseðla út í gengistryggðum lánum sem taka mið af vöxtum Seðlabankans, þrátt fyrir skýran dóm Hæstaréttar. Ég hef ekki heyrt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætli að grípa fram fyrir hendurnar á fjármálafyrirtækjunum með það.

Hér á hinu norræna Íslandi er verið að koma á einhvers konar bandarísku villta vesturs-kerfi þar sem einstaklingar standa úti í gaddinum, þurfa að sækja sín mál sjálfir fyrir dómstólum til þess að knýja fram réttlæti og eiga við ofurvald fjármálafyrirtækja að etja. Þegar dómstólar snúast á sveif með almenningi snýst ríkisvaldið á sveif með fjármálafyrirtækjunum og gegn almenningi. Þetta nýja bandaríska kerfi sem verið er að innleiða hér á Íslandi er í boði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Það er búið að kalla eftir almennum aðgerðum og skuldaleiðréttingum í eitt og hálft ár. Það er ekki hægt, það er ekki hægt, hefur verið viðkvæðið. Eftir þeim hefur verið kallað á forsendum forsendubrests og forsendum jafnræðis milli skuldara og lánveitenda. Það er ekki hægt, segja stjórnvöld, en nú þegar hallar á almenning í landinu eru dregin fram rökin um forsendubrest og jafnræði. Það er frekar ömurlegt að verða vitni að því hvernig ríkisstjórn landsins tekur enn einu sinni hagsmuni fjármálafyrirtækja fram fyrir hagsmuni almennings. Við sáum þetta í Icesave-deilunni þegar ríkisstjórnin gekk fram gegn hagsmunum almennings og með hagsmunum Breta og Hollendinga og nú horfum við upp á þetta einu sinni enn.

Fjármálakerfið á Íslandi er talið vera 30–40% (Forseti hringir.) of stórt fyrir íslenskt samfélag. Það þarf að skera það niður. Hér er komið gullið tækifæri til þess að endurskipuleggja fjármálakerfið upp á nýtt frá grunni. Menn eiga að grípa það tækifæri en ekki reyna (Forseti hringir.) að velta vandanum yfir á illa staddan almenning einu sinni enn.