138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í kjölfar hæstaréttardómsins hafa stjórnvöld sent frá sér alls konar yfirlýsingar, allt frá því að dómurinn muni allur verða túlkaður lántakendum í vil til þess að fjármálakerfið muni ekki standa undir dómnum ef samningsvextir verða látnir gilda. Viðbrögð hafa að vonum verið mikil. Til að mynda sendu Samtök lánþega nú í morgun frá sér yfirlýsingu um að sparifjáreigendum sé hollast að taka innstæður sínar út úr bönkum og koma þeim í öruggt skjól. Með þessu segjast þeir fylgja viðvörunum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðherra sendir frá sér ummæli sem hafa leitt til bankaáhlaups. Það gerði hann líka í lok september 2008 með alvarlegum afleiðingum.

Ekki er úr vegi að ég noti þetta tækifæri til að fara yfir þá hættu sem skapast hefur fyrir fjármálakerfið við dóm Hæstaréttar. En fyrst vil ég lýsa því yfir að nú sé rétti tíminn til að anda með nefinu og að spádómar um fall bankakerfisins séu ekki á rökum reistir. Það er rétt að enginn hádegisverður er ókeypis, en þennan hafa lánardrottnar gömlu bankanna þegar greitt fyrir.

Við yfirfærslu innlána frá gömlu í nýju bankana voru færðar til eignir sem höfðu verið niðurskrifaðar gríðarlega. Segjum til einföldunar að 1.000 milljarða eignir að nafnvirði hafi verið fluttar yfir, en þær hafi verið bókfærðar síðan á 500 milljarða í bókum nýju bankanna til að mæta innlánum. Síðan var sett inn eigið fé til að styðja vel ríflega lögbundið eiginfjárhlutfall, segjum sem dæmi 16%. Nú fellur dómur Hæstaréttar og kröfur á lántakendur minnka um segjum 300 milljarða, og enn standa eftir 500 milljarðar í eignum, 100 milljarðar í eigið fé, en krafan á lántakendur stendur í 700 milljörðum. Ekkert hefur gerst fyrir eigið fé bankanna og ekkert fyrir eiginfjárhlutfallið. Það sem hins vegar hefur gerst er að greiðsluflæðið á lánasöfnum minnkar í framtíðinni og 300 milljarðar af 500 milljarða svigrúmi til afskrifta hefur verið notað. Í stað þess að tekjuflæðið sé af 1.000 milljörðum er það nú af 700 milljörðum. Bankakerfið er jafnsterkt og áður en nú er minna borð fyrir báru.

Reyndar er þetta dæmi ekki algilt því að einhverjir hafa gert upp lán sín, hafa því ofgreitt og eiga kröfu á bankana. Þetta ætti þó ekki að vera stór upphæð því að flest þessara lána voru til langs tíma. Ég tel reyndar að þá upphæð sé hægt að sækja til gömlu bankanna vegna brostinna forsendna en það er önnur saga og lengri.

Það er mikilvægt að fólk sem velst til forustu fyrir þjóðina hafi innsýn í atriði eins og þau sem ég hef hér fjallað um. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að allir þingmenn hafi þekkingu á afkimum reikningshalds, en það er hægt að ætlast til þess af þessum hæstv. fagráðherra. Lífið snýst um meira en 15 mínútur af frægð þrátt fyrir að Andy Warhol hafi haldið öðru fram. Menn verða að geta staðist fjölmiðlana þegar viðkvæmt ástand kemur upp.

Það er mikilvægt að við alþingismenn og hæstv. ráðherrar sýnum yfirvegun og komum fram af festu og trúverðugleika og tjáum okkur ekki um viðkvæm mál nema af þekkingu. Yfirlýsingar um stórkostlega hættu á gjaldþroti bankanna eru rangar og til þess eins fallnar að ýta undir áhlaup á bankana. Að vísu kemur það ekki að jafnmikilli sök nú og þegar hæstv. efnahagsráðherra gaf sína fyrri yfirlýsingu 2008 því að gnótt lausafjár er nú fyrir hendi í bönkunum og gjaldeyrishöft á millifærslum til útlanda. En trúverðugleiki kerfisins dalar og öllum bata seinkar, auk þess sem fólk á heimtingu á að vera í rónni með sparifé sitt. Ekki verður úr því skorið hvaða kjör skuli gilda á lánunum og hve víðtæk áhrif dómsins eru nema fyrir dómstólum. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt fram frumvarp um flýtimeðferð og við skulum öll sameinast um að styðja það. Það er engin ástæða fyrir sparifjáreigendur að óttast um spariféð sitt, en það er ástæða fyrir suma að tala af meiri þekkingu og nærgætni. Málið er of viðkvæmt til að hægt sé að umgangast það með léttúð.