138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að þessi mikilvæga umræða skuli fara hér fram áður en við þingmenn förum í sumarfrí. Ég held að þjóðin bíði eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, viðbrögðum þingsins. Ég vil taka það fram að það er ánægjulegt að ein af þremur valdastofnunum þjóðarinnar skuli vera í lagi. Ég held að dómskerfið hafi sýnt það að undanförnu að það virkar eins og það á að virka á meðan framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þarfnast endurbóta. Í mínum huga var dómurinn mjög skýr. Það er búið að úrskurða að gengistryggingin var ólögmæt. Þetta er í sjálfu sér ekkert flókið og ég er ánægður að sjá og heyra að þingmenn eru meira og minna sammála um þetta.

Það var annað sem Hæstiréttur gerði og mér finnst að menn hafi algjörlega hlaupið frá því í umræðunni, Hæstiréttur ógilti ekki samningana þar sem hið umdeilda ákvæði var. Það er vegna þess að þeir hafa í 36. gr. samningalaga frá 1936, með síðari breytingum, heimild til þess að fella samning úr gildi í heild sinni eða að hluta. Þeir felldu hann úr gildi að hluta, gengistryggingarákvæðið var ólögmætt. Samningarnir sjálfir standa eftir.

Hér hafa margir stjórnarliðar komið fram og sagt: Það er svo mikil óvissa í gangi. Við verðum að bíða eftir dómum, og hitt og þetta. Það er í sjálfu sér engin óvissa. Samningsvextirnir gilda hvort sem þeir eru 3% eða 4%. Við getum beðið eftir einhverjum héraðsdómum eða hæstaréttardómum en ég get alveg fullvissað almenning um það að ef þeir eru einhvern veginn óþægilegir fyrir hæstv. ríkisstjórn mun hún koma enn á ný fram og segja: Það er nú bara óvissa enn á ný.

Það er engin óvissa í mínum huga. Það á að reikna það sem fólk skuldar út frá samningunum eins og þeir standa í dag. Ég er alveg viss um að fjármálafyrirtækin eru ekki í miklum vandræðum með það, þau hafa nú ekki átt í vandræðum með það svona í gegnum tíðina, en þar liggur málið. Áttum okkur á einu: Áhættan samkvæmt neytendalögum og neytendalöggjöfinni allri liggur á þeim sem gerði samningana, hún liggur á sterkari aðilanum sem er í öllum tilvikum fjármálafyrirtækin. Þau sömdu samningana. Þau sömdu skilmálana. Lántakendur höfðu nákvæmlega ekkert um það að segja.

Ég gæti trúað því að við Íslendingar ættum að taka upp svipað kerfi og er í Danmörku þar sem Hæstiréttur hefur heimild til að útskýra eigin dóma. Því miður höfum við ekki þannig kerfi hér á landi en þó hafa stigið fram fyrrverandi hæstaréttardómarar, eins og Magnús Thoroddsen — og hvað segir sá ágæti maður? Jú, samningarnir halda og þeir halda með þeim vöxtum sem eru í samningunum sjálfum. Þetta er algert lykilatriði.

Hér kom hæstv. viðskiptaráðherra, sem ég er ósammála í öllum meginatriðum þessa máls, og fullyrðir, að ég vil meina án alls rökstuðnings, að á einhvern hátt muni þetta allt saman lenda á skattgreiðendum þjóðarinnar. Það gerist ekki nema við ætlum að fara að dæla fé inn í bankana enn á ný. Ég hef enga trú á því að alþingismenn séu reiðubúnir að eyða meira fé skattborgaranna til þess að endurreisa bankakerfið. Er ekki komið nóg í þá veru?

Við ákváðum hér, og ég held að það hafi verið röng ákvörðun, að tryggja allar innstæður. Sá kostnaður lendir á skattgreiðendum. Það heyrist ekki múkk frá þeim sem það gerðu á sínum tíma. Það var ákveðið að dæla peningum til þeirra sem áttu fé í peningamarkaðssjóðunum, um 200 milljarða. Ég gæti nú heldur betur notað það þegar 100 milljarða króna halli er á ríkissjóði og það á að skera niður um 50 milljarða, það er blóðugur niðurskurður. Það voru peningar (Forseti hringir.) sem hurfu út um gluggann og kostnaðurinn lendir á skattgreiðendum. En um það var ekki rætt.

Ég vil segja eitt að lokum: Það gilda lög og reglur í þessu landi. Slítum við í sundur (Forseti hringir.) lögin slítum við í sundur friðinn. Leysum úr þessu máli í rólegheitum án aðkomu (Forseti hringir.) Alþingis.