138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

áhrif dóms Hæstaréttar um gengistryggingu lána, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[14:29]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Hér á landi var almenningi boðið upp á svokölluð erlend lán í kjölfar einkavæðingar bankanna. Ástæðan fyrir því að þau þóttu góður kostur var að hinn kosturinn, hefðbundið verðtryggt íslenskt lán, er algjörlega óásættanlegur. Fagurgali bankanna var á þá leið að loksins, loksins ættu íslenskir lántakendur þess kost að taka sambærileg lán og aðrir borgarar í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þetta var næstum mannréttindamál. Við lántöku útbjó fagfólk fjármálafyrirtækjanna greiðsluáætlun sem lántakinn undirritaði. Þar átti að taka tillit til gengisþróunar og spá sérfræðinga um þróun gengis. Lántakendur gátu ekki vitað að á sama tíma voru þessir sömu bankar meðvitað að færa gengisáhættuna yfir á heimilin og fyrirtækin í landinu, taka stöðu gegn krónunni og ræna bankana innan frá. Við skulum hafa í huga og muna um hvað málið snýst. Fólk tók peninga að láni og á samkvæmt dómi Hæstaréttar að greiða þá til baka með umsömdum vöxtum. Hvað er óeðlilegt við það? Það sem er óeðlilegt er að gerðar séu greiðsluáætlanir sem ekki standast og að einhverjum detti í hug að dómurinn sé óréttlátur. Hann er einmitt réttlátur.

Fjármálafyrirtækin hafa síðustu daga kvartað yfir forsendubresti. Vissulega varð forsendubrestur, en hann varð ekki við dóm Hæstaréttar heldur þegar gengið féll í mars 2008 og hélt svo áfram að falla næstu mánuði. Lántakendur hafa legið í blóði sínu undir fallöxinni í rúmlega tvö ár og stjórnvöld hafa ekkert gert nema bjóða upp á bómullargjaldþrot og lengingar á hengingarólum. Ótal margir hafa verið sviptir eigum sínum og gerðir gjaldþrota. Fjölskyldur hafa sundrast og því miður hafa sumir ekki séð annan kost í stöðunni en að taka sitt eigið líf. Nú biðja lögbrjótarnir um réttlæti. Einn bankastjórinn talaði meira að segja um félagslegt réttlæti. Réttlæti bankanna felst í því að þeir vinni.

Það er okkar hlutverk að verja hag almennings. Hæstiréttur er búinn að fella sinn dóm. Hann skal standa og fjármálafyrirtækin verða að una honum. Fyrsta lotan er unnin en slagurinn er ekki búinn. Nú þurfa allir að standa saman til að tryggja að hagur almennings verði hafður að leiðarljósi. Dómurinn er sáraeinfaldur; gengistryggingin er ólögleg, en samningar skulu standa. Þannig er það og við þá niðurstöðu þarf fjármálalífið að una.

Ef það þýðir að fjármögnunarfyrirtæki sem hafa hundelt almenning með ólöglegum og ósiðlegum aðgerðum fara á hausinn hlýtur það að teljast þjóðþrifamál. Næsta mál á dagskrá er svo að leiðrétta verðtryggð lán og afnema verðtrygginguna. (Gripið fram í: Ganga í Evrópusambandið.)