138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

fundarstjórn.

[14:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því áðan að hæstv. forsætisráðherra sagðist í ræðu sinni vilja vinna að tillögum um að dómsmál sem varða álitamál tengd gengistryggðum lánum fái flýtimeðferð í dómskerfinu og að tillögurnar skuli liggja fyrir í haust. Ég er hræddur um að ef hæstv. ráðherra ætlar að vinna með þessum hætti á hraða snigilsins þá verði það of seint í rassinn gripið. Ég get líka bent hæstv. forsætisráðherra á það að sú vinna er óþörf vegna þess að fyrir þinginu liggur frumvarp okkar sjálfstæðismanna um nákvæmlega þetta atriði, skilyrðislausa flýtimeðferð álitamála sem varða gengistryggð lán, svo sem gengistryggð húsnæðislán, fyrirtækjalán, vexti og jafnvel skaðabótakröfur þeirra sem hafa misst eigur sínar vegna aðgerða lánafyrirtækja sem veittu ólögmæt lán. Vonandi kemur ekki til dómsmála en ég veit til þess að lögmannsstofur eru að fyllast af ágreiningsmálum sem tengjast þessum gengistryggðu lánamálum og ég vil óska eftir því aftur, (Forseti hringir.) eins og ég gerði í upphafi þingfundar, að það frumvarp sem ég vísaði til og flyt ásamt öðrum þingmönnum (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins verði sett á dagskrá Alþingis í dag þannig að hægt sé að tryggja að þessi mál komi fyrir dómstóla, fái flýtimeðferð og að við ákveðum það með lagasetningu í dag.