138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

fundarstjórn.

[14:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum rætt ítarlega dóm Hæstaréttar en þó er engan veginn nóg að gert. Við og þjóðin höfum ekki hugmynd um hvaða áhrif þetta kann að hafa. Fullyrðingar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eru á þann veg að búast megi við öðru bankahruni og öðru efnahagshruni ef mál þróast með ákveðnum hætti. Á sama tíma koma fram menn sem hafa mikla þekkingu á þessum vettvangi og fullyrða allt annað og við lásum svo tilkynningar frá viðskiptabönkunum í morgun en þeir sáu sig knúna til að greina almenningi frá því að þeir séu ekki í hættu þrátt fyrir að öll gengistryggð lán einstaklinga muni falla undir þennan dóm. Þó að þau lán séu öll í hættu sjá bankarnir ástæðu til að árétta það að þeir muni standast það áhlaup.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum: (Forseti hringir.)

„Það kemur ekki til greina að Alþingi ljúki hér störfum og fari í sumarleyfi fyrr en vandaður og sómasamlegur frágangur á málefnum heimilanna (Forseti hringir.) hefur fengið hér farsæla afgreiðslu.“

Virðulegur forseti. Þetta þing gerir ekki þinghlé núna, við munum þurfa að starfa áfram. Þessu máli er engan veginn lokið.