138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að bregðast við orðum hæstv. forsætisráðherra. Vissulega sagði ráðherrann rannsóknarnefnd Alþingis fyrir að nokkru leyti, því að hún taldi að kæmist þingmannanefndin ekki að því að rannsaka þyrfti einkavæðingu bankanna mundi hún sjá til þess sjálf að svo yrði.

Ég sem framsóknarmaður sef vært yfir einkavæðingu bankanna á sínum tíma en ég spyr hæstv. ríkisstjórn: Sefur hún vært yfir hinni seinni einkavæðingu bankanna? Svo virðist ekki vera því að nú eru málin orðin með þeim hætti að hæstv. forsætisráðherra er líka farin að skipa Hæstarétti fyrir. Svo mikið vald liggur ekki hjá framkvæmdarvaldinu. Þótt máttur núverandi ríkisstjórnar sé að eigin mati mikill er ekki hægt að koma fram með tvær óskaleiðir að leysa úr þessu máli sem snertir gengistryggðu lánin að sinni vegna þess að lánin (Forseti hringir.) eru kýrskýr: Hæstiréttur hefur talað, dómurinn stendur og við ættum ekki einu sinni að þurfa að ræða þetta hér, frú forseti.