138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál var aldrei lagt ofan í neina saltpækilstunnu hjá mér. Hins vegar var hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, ráðherra á þeim tíma og hefur væntanlega fengið álitið í hendurnar. Hitt er að málið kom til umfjöllunar á síðari mánuðum á mínum ferli, hygg ég. Á þeim tíma þegar ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra glímdi ég við annað frumvarp og mátti játa mig sigraðan í glímunni við Samfylkinguna. Það var frumvarp um verðmiðlun og verðtilfærslu. Það naut stuðnings verkalýðshreyfingarinnar og bænda og afurðastöðvanna en það var auðvitað hið almáttuga samkeppniseftirlit á þeim tíma sem hafði eitthvað við frumvarpið að athuga. Ég sé núna að þær athugasemdir eru ekki jafnstífar nú til dags, sem er vissulega vel. Í mínu ráðuneyti hygg ég að hafi ekki verið miklar saltpækilstunnur sem málin voru lögð í. Það var yfirleitt eftir að málin komu úr mínu ráðuneyti og jafnvel ríkisstjórninni að þau lentu stundum í saltpækilstunnu Samfylkingarinnar.