138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ekki skal ég skorast undan því að hafa kannski seinkað eitthvað málum þegar efasemdir hafa vaknað um þau í umfjöllun í þingflokki Samfylkingarinnar á þessu ári eins og mörgum hinum fyrri. Það getur auðvitað verið fullt tilefni til þess þegar menn komast á snoðir um það að fyrir liggja lögfræðiálit í þeim ráðuneytum sem málin flytja sem ekki hafa hreint mál og eru á þann veg að þau stríða gegn stjórnarskrá. Það er einu sinni þannig að við sem hér störfum höfum undirritað drengskapareið að stjórnarskránni og okkur ber þess vegna að gæta sérlega vel að þeim áhyggjum sem lýst er um hana og ef menn kjósa að kalla það saltpækilstunnu að gæta að drengskapareið sínum þá þeir um það.

Efasemdirnar um málið sem hér liggur fyrir lúta auðvitað fyrst og fremst að því að hér er verið að tryggja varanlega og endanlega einokun einokunarfyrirtækisins á þessum markaði, MS, í greininni og loka kvótakerfinu í eitt skipti fyrir öll. Ég hef áhyggjur af því að verið sé að ganga með óeðlilegum hætti erinda sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna, og það muni til lengri tíma koma í veg fyrir frjálsa samkeppni á þessu sviði, auka mjög kostnað í greininni og verða sömuleiðis mjög kynslóðaíþyngjandi, eins og ég mun koma að á eftir.

Sú óvissa sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi hæstv. ráðherra, nefndi áðan er þessi svokallaða óvissa um það að þeir sem hafa niðurgreiðslu á mjólk eigi neytendurna í landinu. Það er auðvitað það sem deilan snýst fyrst og fremst um, hvort hægt sé að binda það þeim skilyrðum að menn njóti niðurgreiðslna frá ríkinu að þeir fái að framleiða mjólk og selja. Í núverandi stöðu er frjálsbornum Íslendingum heimilt að framleiða mjólk og selja hana utan hins ríkisstyrkta kerfis. Ég held að algert lágmarksaðhald sem niðurgreitt ríkisstyrkt kerfi getur haft, sé að niðurgreidd mjólk geti á hverjum tíma staðist frjálsa samkeppni við óniðurgreidda. Ef niðurgreitt opinbert kerfi getur ekki staðist samkeppni við óniðurgreidda framleiðslu þá hlýtur úrkynjun þess að vera alger. Þá þjónar það ekki lengur þeim yfirlýsta tilgangi um almannahagsmuni þegar það var sett á upphaflega.

Ástæðan fyrir því að ég hef efasemdir um þetta fyrirkomulag, eins og kvótafyrirkomulag í framleiðslugreinum yfir höfuð, er að reynslan sýnir okkur að þó að þeir sem starfa í viðkomandi greinum tali mjög fyrir slíkum kvótakerfum í þágu greinarinnar þá sé það ekki þannig þegar menn skoða reynsluna og söguna. Það hefur gerst æ ofan í æ að slík kvótakerfi verða til þess að ein kynslóð manna sem starfar í tiltekinni atvinnugrein fær með löggjöf, sem þjónar sérstaklega sérhagsmunum hennar, að skuldsetja atvinnugreinina óhæfilega í eigin þágu. Þær aðrar kynslóðir sem eftir það starfa í atvinnugreininni þurfa að standa undir þeim skuldum. Þetta er m.a. það sem hefur gerst í sjávarútveginum og við súpum nú seyðið af.

Ég tel að menn þurfi að spyrja sig alvarlegra spurninga um hvort ekki sé algert lágmark að gera þá kröfu í jafnniðurgreiddu kerfi og þetta að mörgu leyti ágæta kerfi er, að það þurfi á hverjum tíma að haga starfsemi sinni þannig að ef frjálsbornir Íslendingar ákveða að setja upp óniðurgreidda framleiðslu utan ríkiskerfisins þá geti hið gríðarlega ríkisstyrkta framleiðslukerfi staðist samkeppni við slíka framleiðslu. Ég geri engan ágreining um það að þetta ákveðna mjólkurkerfi skilar mörgum góðum kostum, bæði í framleiðsluvörum og á margan hátt í verði.

Það er ein af grundvallarástæðum þess að ég hef haft sterkar efasemdir um þetta mál og ég stend ekki að nefndarálitinu. Ég hygg að ýmsir þeir þingmenn sem það gera, geri það með hálfum hug. Það vita það auðvitað allir sem starfað hafa á þessu löggjafarþingi að afgreiðsla málsins inn í 2. umr. er fyrir neðan allar hellur og er einvörðungu gerð til að uppfylla kröfu Framsóknarflokksins um að málið verði tekið til 2. umr. Það vita það allir þingmenn sem gæta að góðum vinnubrögðum að það að fara í 2. umr. um mál og taka efnislega afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu, án þess að hafa kallað eftir skriflegum umsögnum helstu hagsmunaaðila og með lögfræðiáliti um stjórnarskrárvafann í pósthólfum þingmanna, án þess að hafa farið í gegnum þau í nefndinni og kallað til þá sem þau álit sömdu, er auðvitað algerlega óviðunandi afgreiðsla á máli inn í 2. umr. En ég hef líka skilning á því að sumir nefndarmanna töldu sig þurfa að fylgja eftir samkomulaginu sem gert var með þessum hætti. Þessa skoðun verður þá að taka í því hléi sem verður á störfum sjálfs þingsins og fara í gegnum málið fyrir 3. umr. sem er auðvitað síðri málsmeðferð en við eigum að gera kröfu til í þinginu. Þar sem við erum að ljúka störfum í dag ætla ég að bíða með umfangsmikla og efnislega umfjöllun um málið fram í 3. umr. og nefndarstarfið, ef af 3. umr. verður í september. Þá gefst ábyggilega gott tækifæri til að taka það til ítarlegrar og efnislegrar umfjöllunar eftir að hafa fengið öll þau sjónarmið sem nauðsynlegt er að við köllum eftir til að vega og meta þau stóru álitamál um þá atvinnugrein sem hér um ræðir.