138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég býst við að við hv. þm. Helgi Hjörvar þyrftum lengri tíma en þessar 20 mínútur sem ég hef hér í dag til að fjalla um ræðu hans og þann skilning sem hann hefur á niðurgreiðslu á mjólkurafurðum og á landbúnaðarkerfinu og þann skilning sem hann leggur í réttindi og skyldur og jafnræði. En ég mun þó að einhverju leyti koma inn á það í ræðu minni.

Það hefur komið í ljós að hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggjast með einum eða öðrum hætti gegn málinu eða framgangi þess eða setja mörg spurningarmerki við framgang þess eða efni þess í heild sinni. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir minntist til að mynda á að þetta hefði borið brátt að í nefndinni. Það er alveg rétt, þetta mál er búið að vera lengi í þinginu, ég held þrjú ár. Auðvitað ekki hjá okkur sem vorum kosin á vordögum í fyrra en á fyrri þingum, sambærilegt mál, sams konar mál, sama málið, og ár eftir ár stoppar það á nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar en ekki öðrum. Það má spyrja hvort það sé hin lýðræðislega leið að örfáir þingmenn eins flokks geti stöðvað mál ár eftir ár, verandi í stjórnarmeirihluta.

Ég vil minna á að það voru fjölmörg önnur mál sem runnu hér ansi hratt í gegn og sum hver fengu afar litla umfjöllun í nefndum og bar ansi brátt að. Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem höfum þó ekki haft tækifæri til að vita að þau væru komin þetta langt eða væru á leiðinni hér inn — það voru tekin hér inn stjórnarfrumvörp með afbrigðum og við þurftum að setja okkur inn í þau með mjög stuttum fyrirvara, mál sem voru algjörlega ný og höfðu ekki þessa sömu sögu og þetta mál. Ég vil því ítreka það og styðja formann nefndarinnar í því að hann var að gera það sem formenn margra annarra nefnda gerðu á sama tíma, að uppfylla það samkomulag sem gert var á formannafundum stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ég get þó ekki alveg sleppt hv. þm. Helga Hjörvar án þess að minnast á það sem hann endaði ræðu sína á. Þetta mál er í lýðræðislegu ferli, í eðlilegu ferli innan þingsins. Það getur verið að það hafi borið brátt að en það er komið hér inn. Mér finnst merkilegt að Samfylkingin skuli hafa lagst gegn því að málið gengi til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Það má spyrja sig af hverju. En hv. þm. Helgi Hjörvar endaði á því að segja: „Ef“ málið kæmi til þriðju umræðu. Ég velti því þá fyrir mér hvort hér sé dulbúin hótun um að örfáir þingmenn Samfylkingarinnar, þó að málið sé þeim ekki að skapi, ætli enn og aftur að koma í veg fyrir að stór meiri hluti þingsins geti látið þetta mál ganga eðlilega fram.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hér í upphafi er þetta, held ég, þriðja þingið í röð sem þetta mál kemur inn. Í nefndarálitinu, sem hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atli Gíslason, hefur farið ágætlega yfir, kemur fram að þetta byggist á því að ákvörðun um heildargreiðslumark sé byggð á neyslu innlendra mjólkurafurða. Það þekkja þeir sem starfa í þessari grein þó að aðrir þekki það kannski síður. Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal samkvæmt 52. gr. búvörulaga fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Að öllu framangreindu liggur fyrir að sala mjólkurafurða á íslenskum markaði umfram greiðslumark er bönnuð og umframframleiðsla verður aðeins seld erlendis.

Í þeim álitum sem nokkrir þingmenn hafa vísað til, úr ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs á mismunandi tímum, kemur skýrt fram að það er í lagi og það er heimilt og lagalega rétt að framleiða mjólk umfram kvóta en það stendur bara í lögunum að sá hluti skuli fluttur erlendis, hann skuli ekki fara á innlendan markað, vegna þess að í samkomulagi sem ríkisvaldið hefur gert við kúabændur eiga þeir að takmarka framleiðslu sína að innlendri neyslu en ekki vera með eitthvað umfram það.

Markmið frumvarpsins er þar með að fylgja eftir skýrum ákvæðum laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og varðveita núverandi framleiðslustýringarkerfi á meðan annað og betra kerfi hefur ekki litið dagsins ljós. Það er áhugavert að ræða þennan punkt því að við erum að tala um sambærileg framleiðslustýringarkerfi á þessum margfrægu Norðurlöndum, sem ég hef oft sagt frá hér í pontu. Ríkisstjórnin segist vera að vinna að norrænu velferðarkerfi og við erum með sambærilegar aðstæður. Þetta er sambærileg löggjöf, þetta eru sambærilegt framleiðslustýringarkerfi og það er ekkert athugavert við það. Enda er staðreyndin sú að á Norðurlöndum er eitt mjólkurafurðastöðvarfyrirtæki, Arla Foods, allsráðandi á markaði og í Norður-Evrópu er það svipað, eitt risastórt fyrirtæki. Meira að segja á Nýja-Sjálandi, þar sem markaðsöflin fengu að vaða yfir og lögðu landbúnaðinn nánast í rúst, land sem byggir á allt annars konar framleiðsluaðferðum en við hér á norðurhveli jarðar, meira að segja þar varð niðurstaðan eitt mjólkurafurðastöðvarfyrirtæki vegna þess að það er skynsamlegasta og besta leiðin til þess að safna mjólk og koma henni til neytenda. Þannig er það nú. Hér erum við því ekkert að tala um eitthvert íslenskt fyrirbæri þar sem verið er að moka undir íslenska bændur og gegn neytendum, síður en svo.

Ef við tökum t.d. verð og verðþróun á innlendum mjólkurafurðum í samanburði við erlendar vörur sjáum við að innlend búvara hefur haldið niðri neysluverði í landinu á síðustu 10–15 árum. Kerfið sem við settum upp hefur því virkað. Ég verð því að segja eins og er að ég væri til í langa umræðu um þetta við hv. þingmenn Samfylkingarinnar en við höfum því miður ekki tíma til þess í dag. Ég ætla að reyna að komast aðeins í gegnum nokkra aðra hluti sem eru í frumvarpinu.

Til að mynda er opnað á þann nýja möguleika að nýta 10 þús. lítra — nefndin leggur til að það fari í 15 þús. lítra — af umframmjólk, umfram greiðslumark, heima á búinu til að framleiða vörur og selja þar. Þetta er stuðningur sem er metinn upp á einar 3 millj. kr. í nýsköpun, þetta hlutfall er sennilega ein 5% af heildargreiðslumarki eða heildarframleiðslurétti í landinu og við það að hækka þetta í 15 þús. lítra erum við að tala um að nýsköpunarstuðningurinn verði þá vel yfir 4 millj. kr., um 7,5%, og það er nú bara allnokkuð.

Í umsögn eða á minnisblaði stjórnar Landssambands kúabænda vegna þessara breytinga frá 15. janúar á þessu ári — þetta er ekki nýtt, það er ekki eins og þetta hafi dottið hérna inn allt í einu — fagnar Landssambandið því að þetta sé komið hér inn til þess að taka af tvímælin um forgang greiðslumarks mjólkur á innanlandsmarkaði eins og lögin segja og að óvissu verði eytt varðandi réttindi og skyldur þeirra sem eru í greininni. Landssambandið telur jafnframt mikilvægt að koma í löggjöf ákvæðum varðandi þessa heimavinnslu mjólkur því að slík heimavinnsla geti aukið á fjölbreytni á markaði, sé jákvæður valkostur fyrir neytendur og geti skapað sóknarfæri fyrir framleiðendur.

Það kemur jafnframt fram í minnisblaðinu, og ég vil gjarnan gera það að mínum orðum líka, að að mati Landssambandsins sé forsenda þessarar ívilnunar sú að umrædd mjólk sé framleidd, unnin og afurðirnar seldar beint frá býli til neytenda af sama rekstraraðila. Síðan má hugsa sér það — við aukum þetta hér upp í 15 þús. lítra — að ef það dugir ekki þeim aðilum sem eru á þessum markaði að prófa vörur til að koma þeim þá inn á almennan markað má kannski velta því fyrir sér hvort það sé nokkur rekstrargrundvöllur fyrir því sem þeir eru að gera. Ef þetta dugir hins vegar, sem ég held að það muni gera í mörgum tilvikum, að þetta muni stækka markaðinn og búa til nýja og áhugaverða sérvöru, skapa samkeppni á markaði og stækka hann, er ekkert óeðlilegt að þessi fyrirtæki fari af því stigi að vera „Beint frá býli“ fyrirtæki, framleiðendafyrirtæki, yfir í það að vera afurðastöð. Það geti þá tekið greiðslumarksmjólk inn í framleiðslu sína, hvort sem það er frá því sjálfu eða öðrum, og fari þannig inn á markaðinn í samkeppni við aðra þá sem framleiða fyrir stærri verslunarmarkað. Ég held að það væri hin rétta leið og væri áhugavert.

Landssamband kúabænda hefur aðeins áhyggjur af því að þetta megi ekki verða meira en 10 þúsund. Við í nefndinni vorum sammála um að þessir 15 þús. lítrar gætu gengið en það er rétt að taka fram að umtalsverð ívilnun er fólgin í því og það er verið að opna þann möguleika á að nýta umframframleiðslu allra þeir sem vilja ganga lengra og fara út í meiri rekstur geta þá nýtt greiðslumarksmjólk samhliða þessari umframframleiðslu.

Varðandi hitt ákvæðið, sem snýr að refsiákvæðinu um móttöku á umframframleiðslu utan greiðslumarks, þá er þetta auðvitað nauðsynlegt til að vernda þá sem hafa tekið að sér að uppfylla þarfir markaðarins. Það fylgja því bæði réttindi og skyldur. Í ljósi þess samdráttar og fækkunar sem orðið hefur á landinu hefur greiðslumark, og þar af leiðandi kvóti til kúabænda, minnkað umtalsvert á liðnum árum og þeir hafa orðið að draga verulega úr framleiðslu sinni. Það er heldur ekki sanngjarnt, og þá með samanburði við sjávarútveginn, að þeir sem hafa selt sig út úr greininni, selt kvótann sinn, eigi síðan að hafa óheftan aðgang til að koma inn á markaðinn á ójafnræðisgrunni, setja upp ný fyrirtæki til framleiðslu í keppni við hina sem þeir voru að selja kvótann til. Þetta er það sama og við höfum séð í sjávarútvegi aftur og aftur og þetta er ekki það sem jafnræði á að snúast um.

Ég er í grundvallaratriðum undrandi á jafnaðarmönnunum í Samfylkingunni, að þeir skuli ekki horfa á þennan jafnræðishluta. Ég hef velt því fyrir mér hverra hagsmuna þeir gæta þegar þeir stoppa þetta brýna mál núna á þriðja eða fjórða ár hér í þinginu. (Gripið fram í.) Aðilar sem eru utan þessa greiðslumarkskerfis hafa þennan möguleika, að framleiða þessa 10–15 þús. lítra. Það er auðvitað ekki mikið. En það væri mjög óeðlilegt — og við þekkjum dæmi þess — að aðilar sem hafa jafnvel sankað að sér jörðum, eða í það minnsta keypt nokkra róbóta, og farið inn í þessa grein með peninga úr öðrum rekstri, hvaðan sem þeir nú koma, ættu að fara að keppa við venjuleg fjölskyldubú í landinu.

Við getum líka hugsað okkur að ganga alla leið, og við í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fengum inn á fund hjá okkur svínabændur, og fara með landbúnaðinn allan yfir í frjálshyggjusamkeppnina, sem mér heyrist hv. þingmenn jafnaðarstefnunnar, Samfylkingarinnar, vera að tala fyrir. Þá munum við horfa til þess sama og gerðist í svínaræktinni. Fyrir 10–12 árum voru um 140 framleiðendur á svínakjöti í landinu en þeir eru 15 í dag og öll stærstu búin eru rétt í kringum markaðinn. Þannig yrði það líka í mjólkuriðnaðinum ef það kerfi yrði aflagt sem við þekkjum í dag. Þá yrðu hér örfáir stórir framleiðendur með risafabrikkur og við megum ekki gleyma því að við erum að tala um dýr en ekki vélar. Það er ekki hægt að slökkva á framleiðslunni einn daginn af því að fyrirtækið verður gjaldþrota eða missir markað heldur þarf að hugsa um dýr og það tekur til að mynda langan tíma að koma upp kúastofni, svo að það sé nefnt hér.

Við þurfum því virkilega að taka þessa grundvallarumræðu hér ef það mun sýna sig á haustdögum að örfáir þingmenn Samfylkingarinnar ætla enn og aftur að bregða fæti fyrir þetta brýna mál. Þetta á ekki við um samkeppnishamlandi aðstöðu eins og hér hefur komið fram. Menn rugluðu því nokkuð saman við fyrirtækið Mjólku hér fyrir nokkrum árum en aðstæður eru allt aðrar á markaðnum í dag. Það er búið að tryggja að fyrirtæki geta keypt hrámjólk, greiðslumarksmjólk, á viðunandi opinberu verði, eftir verðlagningu, þar sem allir sitja við sama borð.

Ég vil líka ítreka að við erum ekki ein í þessum heimi og þetta er ekki kerfi sem fundið var upp á Íslandi. Þetta er kerfi sem hefur gengið víðast hvar í heiminum. Niðurstaðan hefur einfaldlega alls staðar orðið sú að eitt stórt mjólkurafurðastöðvakerfi nær að tryggja með bestum hætti bæði hag neytenda og framleiðenda á hverjum stað.

Hér hefur verið minnst á misvísandi minnisblöð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og því langar mig að vitna aðeins í það. Það er alveg klárt að nokkur efi er settur fram í minnisblaðinu frá 2005 um ýmsa þætti en það er þó gert kristalklárt að heimilt er að framleiða mjólk án þess að hafa greiðslumark, en samkvæmt laganna hljóðan orkar það mjög tvímælis að lögin gefi færi á þeirri lagatúlkun að slíka framleiðslu megi markaðssetja á innanlandsmarkaði. Það er því niðurstaða minnispunkta frá núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta hefur líklega verið í júlí í fyrra, í bréfi sem sent var til Samfylkingarinnar, þannig að það hefur sannarlega verið lengur en frá því í febrúar í þingflokki Samfylkingarinnar. Þá enda viðkomandi lögfræðingar ráðuneytisins á því að segja, með leyfi forseta:

„Það er álit ráðuneytisins að það frumvarp sem er til skoðunar hjá þingflokki yðar gangi eigi í bága við stjórnarskrárvarin réttindi. Ráðuneytið telur einnig að afar mikilvægt sé að frumvarp þetta verði að lögum en ekki verði látið reka á reiðanum í þessu efni þar til brýtur á skeri.“

Nú vil ég hvetja Samfylkinguna og ríkisstjórnina í þessu merkilega stjórnarfrumvarpi, sem við í stjórnarandstöðunni styðjum eindregið, að láta ekki reka á reiðanum og taka ákvarðanir áður en lengra er haldið.