138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

662. mál
[15:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ítarlega hefur verið farið yfir röksemdir okkar í minni hlutanum fyrir stuðningi okkar við þetta frumvarp. Grundvöllurinn er sá að á meðan við búum við þetta kerfi í landbúnaðarframleiðslu okkar sem nokkuð víðtæk sátt hefur verið um er ekki ástæða til að breyta einstökum þáttum þess í stórkostlegum atriðum og mikilvægt er, ekki síst við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag, að við tryggjum hér umhverfið og stuðlum að auknum stöðugleika á þessum vettvangi sem öðrum.

Ég skrifa undir þetta frumvarp með fyrirvara og fyrirvari minn lýtur kannski fyrst og fremst að því frímarki sem sett er í frumvarpinu sem er um 10 þús. lítrar sem bú má framleiða til að nota til framleiðslu á sínu búi. Samkvæmt tillögum nefndarinnar er breytingartillaga á frumvarpinu þar sem þetta er fært upp í 15 þús. lítra.

Helsti vaxtarbroddurinn í íslenskum landbúnaði liggur kannski í þeirri starfsemi sem hefur farið mjög vaxandi og er kennd við samtökin Beint frá býli. Ég hef verið ákafur stuðningsmaður þess að reyna að greiða leið þessa einkaframtaks í sveitum landsins eins og mögulegt er og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sýndi þessu máli það virkilega í huga og verki þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 2010, en þá var lögð til umtalsverð hækkun á framlagi til samtakanna með þeim skilaboðum að þau ættu að reyna að efla ákveðna þætti í starfsemi sinni og að hugur fylgdi máli frá Alþingi í þeim efnum að standa við bakið á þessum vaxtarsprotum.

Við höfum séð mörg bú ná mjög áhugaverðum árangri í fjölbreyttri framleiðslu landbúnaðarafurða þar sem fólk skapar og eykur verðmæti framleiðslu búanna mjög mikið. Ég hef mikla trú á því að þetta verði með mun sterkari hætti í framtíðinni og set þess vegna fyrirvara við þetta mál vegna þess að ég hefði jafnvel viljað sjá þetta mark fara enn hærra. Þegar svona vaxtarsprotar fara af stað kvikna þeir kannski af litlu og verða vonandi að einhverju stóru. Þá fara hlutirnir og framleiðslan að krefjast meiri fjárfestinga og kostnaðar til þess að koma þessu á þann skrið að þetta fari að skipta verulegu máli fyrir afkomu búanna. Þarna hefði ég viljað að við teygðum okkur jafnvel enn lengra einmitt til þess að geta stutt við bakið á þeim sem komnir eru á ákveðinn skrið í þessum málum og stefna enn hærra, svo þeir gætu réttlætt þær fjárfestingar sem þeir þurfa til þess að taka næsta skref.

Að öðru leyti er ég sáttur við frumvarpið eins og það er og lýsi yfir stuðningi við það.