138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp en hef vissar efasemdir. Fjármagnstekjur voru einu sinni til frádráttar en fjármagnsgjöld og tekjurnar skattskyldar. Þá voru vextir alltaf neikvæðir. Frá 1950–1980 voru vextirnir undir verðbólgunni og þjóðinni var kennt að eyða. Hún breyttist í eyðslukló Evrópu og þeim sem spöruðu var refsað. Þá þótti mönnum óeðlilegt að vextir væru skattskyldir. Þeir voru í reynd neikvæðir og þá var skattskylda vaxta afnumin. Seinna var frádráttur vaxta afnuminn. Það þótti óeðlilegt að menn gætu dregið vexti frá skatti á sama tíma og vextirnir voru neikvæðir og þeir grætt á öllu saman. Í fyrsta lagi græddu þeir á neikvæðum vöxtum og síðan gátu þeir dregið vextina frá skatti. Þess vegna var hvoru tveggja hætt.

Þegar samræmdur fjármagnstekjuskattur var tekinn upp var ákveðið að horfa fram hjá vaxtagjöldum. Það var reyndar rætt í nefndinni, sem ég held að menn ættu að skoða núna þegar þeir eru farnir að hækka skattlagningu á vexti svona mikið að það nálgast skatta á laun, að líta bara alltaf á raunvexti og hafa vaxtagjöld til frádráttar. Ef það skyldi gerast að menn fengju neikvæða raunvexti út úr þessum hæstaréttardómi eru það í rauninni tekjur og þær ætti að skattleggja sem slíkar. Núna ættu menn kannski að skoða það að taka upp nýtt skattlagningarform á fjármagnstekjur. Þá yrðu teknir inn raunvextir og raunvaxtagjöld, eins með hlutabréf, að draga megi tap frá tekjum og þá verði raunarður skattlagður sem tekjur.

Það er ekkert voðalega flókið, frú forseti, á dögum tölvualdar að koma með þetta. Það væri miklu nær. Þá mættu menn líka skattleggja fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld til frádráttar með sömu sköttum og launatekjur. Þá yrði mörgum skemmt sem sjá ofsjónum yfir 10% skatti á fjármagnstekjur sem er reyndar búið að hækka upp í 18% en er núna lagður á neikvæðar vaxtatekjur.

Þetta var mikið rætt í nefndinni en ákveðið var að taka öll vaxtagjöld út. Þess vegna getur það gerst að maður nokkur sem kaupir sumarbústað fyrir 10 milljónir og tekur til þess 10 millj. kr. lán borgar eingöngu vexti af láninu. Síðan selur hann sumarbústaðinn einhverjum árum seinna á 30 milljónir og þá er hækkunin á láninu líka 30 milljónir. Gefum okkur að lánið hafi hækkað nákvæmlega eins og sumarbústaðurinn. Þá er hækkunin á láninu ekki skattskyld og kemur skattinum ekkert við en hins vegar er hækkunin á sumarbústaðnum skattskyld. Þetta leiðir til heilmikils mismunar og skekkju í kerfinu. Það er rökleysa. Það er í raun rökleysa að niðurfelld vaxtagjöld séu skattskyld. Því að þegar lánin hækka, t.d. vegna verðbólgu, gengishækkunar eða einhvers slíks, ef þau eru gengistryggð, eru þau ekki skattskyld. Þegar það sama er fellt niður ætti það náttúrlega að vera skattfrjálst. En ef þetta ætti að vera til frádráttar miðað við fjármagnstekjur ætti niðurfelling á skuldum í rauninni að vera fjármagnstekjur en ekki venjulegar tekjur. Mér finnst að menn hafi ekkert tekið á þessu.

Hér er hins vegar lagt til að þetta sé skattfrjálst og þá til tekjuskatts með ákveðnu hámarki án þess að skoðað sé hvort um gjafagerning sé að ræða eða ekki. Það getur leitt til þess að menn sem fá gjafagerning, ef hann er hæfilega lítill, 10–20 milljónir, þá verði það skattfrjálst. Ég bendi bara á þetta. Ég lagði til við 1. umr. að reglan yrði sú að niðurfelling skulda væri alltaf skattfrjáls enda væri ekki um gjafagerning að ræða. Það hefði verið mun skynsamlegra og þær gáttir, sem hér eru, hefðu ekki opnast.

Ég get að sjálfsögðu ekki verið á móti því að skattar séu lækkaðir. Þess vegna styð ég frumvarpið með þeim fyrirvara að það gætu opnast einhverjar gáttir sem menn áttuðu sig ekki alveg á og svo eru aðrar gáttir sem ekki lokast. Bóndi sem keypti stofnbréf fyrir 50 eða 100 milljónir, við skulum gefa okkur það, og á jörð metna á 100 milljónir eða 150 — ég get ekki séð að niðurfelling á þessum 100 milljónum við kaup á stofnbréfunum, sem eru horfin, sé annað en gjafagerningur nema skuldin sé sett á jörðina. Í flestum tilfellum mundi búið ekki standa undir skuldinni. Hún þolir ekki slíka skuldsetningu þannig að það væri sama og gjaldþrot búsins. Ég er því ansi hræddur um að svona dæmi sitji eftir þrátt fyrir þetta frumvarp.

En ég styð þetta, eins og ég sagði. Ég hef samt ákveðnar efasemdir um að menn átti sig ekki nægilega vel á því hvað er að gerast.